Innlent

Vegið harkalega að fyrirtækinu

Fjarskiptafyrirtækið Og Vodafone ætlar að skoða réttarstöðu sína í kjölfar ummæla Jónínu Benediktsdóttur á Bylgjunni í gær um að fyrirtækið tengdist ólögmætri dreifingu persónulegra gagna viðskiptavina. "Hún hefur með orðum sínum vegið harkalega að fyrirtækinu með ómaklegum hætti," segir í yfirlýsingu frá Og Vodafone. Fyrirtækið vísar fullyrðingum Jónínu alfarið á bug og telur málið vera háalvarlegt. Í yfirlýsingunni kemur fram að beinn aðgangur að póstþjóni Og Vodafone einskorðist við mjög fáa starfsmenn og sé eingöngu vegna kerfisumsýslu og viðhalds. Þessir starfsmenn hafi allir undirritað trúnaðaryfirlýsingu. "Í raun er ekki einungis um að ræða ásakanir á hendur eigendum Og Vodafone heldur ennfremur því starfsfólki sem starfar hjá fyrirtækinu," segir í yfirlýsingunni. Viðbragða Jónínu Benediktsdóttur var leitað í gærkvöldi en hún kaus að slíta samtalinu áður en hægt var að bera málið undir hana.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×