Innlent

Össur gagnrýnir Steinunni Valdísi

"Það er óskrifuð regla að stjórmálamenn fá að kynna framboð sín til embætta í fullkomnum friði," segir Össur Skarphéðinsson, fyrrum formaður Samfylkingarinnar um ummæli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra varðandi ákvörðun Stefáns Jóns Hafsteins um að bjóða sig fram sem borgarstjóraefni Samfylkingarinnar. Hún sagði í fréttum RÚV að ákvörðun Stefáns Jóns kæmi henni ekki á óvart enda hafi hann gengið með borgarstjórann í maganum um nokkra hríð. Össuri finnst það ákaflega óviðeigandi að manneskja sem er í forystuhlutverki fyrir flokk skuli tala frekar neikvætt um félaga sinn sem er að bjóða sig fram, jafnvel þótt það sé til þess embættis sem viðkomandi gegnir. "Stefán Jón hefur fullkomlega eðlilegar ástæður til að bjóða sig fram sem borgarstjóraefni Samfylkingarinnar og það er engin ástæða til að tala niður til hans vegna þeirrar ákvörðunar eins og mér finnst gert þegar talað er um að hann sé að bjóða sig fram af því hann hafi borgarstjórann í maganum," segir Össur. "Svona eiga forystumenn ekki að tala. Þeir eiga að virða aðra og rétt þeirra til að sækjast með lýðræðislegum hætti eftir trúnaðarstöðum," segir hann. "Mér finnst ekki að borgarstjórar eigi að tala svona um keppinauta sína og minni á að þegar við Ingibjörg Sólrún tókumst á um formennsku þá var það algjörlega á forsendum gagnkvæmrar virðingar," segir Össur. Stefán Jón Hafstein tilkynnti í fyrradag um að hann gæfi kost á sér í fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar í næstu borgarstjórnarkosningum. Steinunn Valdís sagði í samtali við fréttastofu RÚV þegar leitað var eftir viðbrögðum hennar: "Miðað við þessar fréttir er ljóst að allavega tveir hafa gefið kost á sér. Í sjálfu sér kemur það mér ekkert á óvart að Stefán Jón skuli gefa kost á sér enda maðurinn búinn að ganga með borgarstjórann í maganum um nokkra hríð og það er bara ágætt og fínt að fá góða samkeppni," sagði Steinunn Valdís. Stefán Jón sagði í viðtali við Fréttablaðið í gær að þessi ummæli skiptu sig engu. Ekki náðist í Steinunni Valdísi í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×