Innlent

Skýringar á öllum ákæruatriðum

Breska ráðgjafafyrirtækið, Capcon-Argen, segir eðlilegar skýringar finnast á öllum ákæruatriðum í Baugsmálinu. Breska fyrirtækið kynnti í gær niðurstöður rannsóknar sem fyrirtækið hefur gert á öllum fjörutíu töluliðum ákærunnar í Baugsmálinu. Fulltrúi fyrirtækisins sagði málið mjög yfirgripsmikið og á köflum flókið en þegar það sé metið út frá einstökum liðum ákærunnar þá komi í ljós eðlilegar skýringar á öllum hlutum. "Okkar hlutverk er ekki að dæma menn seka eða saklausa. Við erum einfaldlega að fara í gegnum þau atriði ákærunnar sem deilt er um og sjá hvort að okkur finnist eðlileg skýring á þeim hlutum. Okkar niðurstaða er sú að það séu eðlilegar skýringar," segir Dedro Lo, lögfræðingur og fulltrúi Capcon-Argen. Á fundinum var gerð ítarleg grein fyrir hverjum ákærulið í Baugsmálinu og segir Lo að hún hafi lagt áherslu á að fá skýringar frá hinum ákærðu á vafaatriðum sem hafi í öllum tilfellum reynst fúsir til að veita þær upplýsingar sem hún þurfti til þess að komast að niðurstöðu. "Stjórn Baugs fól mér þessa vinnu og mér finnst ánægjulegt að hafa komist að niðurstöðu því hér er um að ræða fjörutíu flókna ákæruliði. Við erum ekki varnaraðili eins né neins heldur mátum atriðin hvert fyrir sig og komust að þessari niðurstöðu. Eina leiðin til þess að skilja efni ákærunnar er að fara ofan í hana með þessum hætti," segir Lo.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×