Erlent

Næsti páfi ítalskur?

Talið er líklegt að margir kardinálar kaþólsku kirkjunnar muni leggja áherslu á að næsti páfi verði ítalskur. Kjör nýs páfa hefst á mánudaginn.

Fréttaskýrendur benda á að pólskur páfi hafi ráðið ríkjum í Róm í meira en aldarfjórðung og að mörgum finnist tími kominn til þess að Ítali taki við embættinu á nýjan leik. En þótt Ítalía hafi flesta kardinála allra kaþólskra landa eru þeir hvergi nærri nógu margir til þess að geta ákveðið það upp á sitt einsdæmi. Til þess þurfa þeir stuðning kardinála frá öðrum löndum og raunar er ekkert ólíklegt að sá stuðningur sé víða fyrir hendi.

Ítalir hafa í gegnum aldirnar ráðið ríkjum í kaþólsku kirkjunni og þeir eru í miklum meirihluta meðal starfsmanna og embættismanna páfagarðs. En, eins og fyrr segir, eru Ítalir engan veginn vissir um sigur. Sérstaklega hefur verið nefnt að kaþólska kirkjan á miklum uppgangi að fagna í Afríku og afrískur páfi var síðast kjörinn fyrir meira en 1500 árum. Suður-Ameríka kemur einnig til greina.

En hver sem verður kjörinn páfi má reikna með að hann geri ekki neinar stórkostlegar breytingar á stefnumálum kaþólsku kirkjunnar. Hafa ber í huga að Jóhannes Páll páfi skipaði góðan hluta þeirra kardinála sem ganga til atkvæðagreiðslunnar á mánudag. Og margir þessara kardinála hafa sömu skoðanir og hann á getnaðarvörnum, kvenprestum, skírlífi presta og öðrum málaflokkum þar sem Jóhannes Páll þótti óhóflega íhaldssamur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×