Innlent

Kröfu um utandagskrárumræðu hafnað

Forseti Alþingis hafnaði kröfu Kolbrúnar Halldórsdóttur, vinstri - grænum, um utandagskrárumræðu um ástandið á fréttastofu Útvarps skömmu áður en þingfundur hófst klukkan hálftvö. Ákveðið var á fundi með formönnum þingflokka að umræðan færi fram þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir væri komin frá útlöndum. Stjórnarandstaðan mótmælti þessu harðlega í umræðum um störf þingsins nú eftir hádegið en forsætisráðherra var ekki viðstaddur umræðuna. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna sagði alvarlegt að forsætisráðherra væri með undanbrögð en hann væri staddur í þinghúsinu. Forseta þingsins bæri að tryggja að forsætisráðherrann væri viðstaddur umræðuna. Hann sækti umboð sitt til Alþingis. Það væri ævintýralegt að reynt væri flokkspólitískt valdarán á útvarpinu. Auðun Georg Ólafsson mætti til starfa í dag sat ekki fréttafund með fréttamönnum á fréttastofu Útvarps klukkan hálfníu. Hann hitti hins vegar fréttamenn síðar til að gera grein fyrir stöðu mála. Þar mun hann hafa sagt að þeir sem ekki treystu honum gætu hætt störfum en bauðst til að gera vel við þá sem vildu verða áfram. Í samtali við fréttamann Ríkisútvarpsins í dag bæði neitaði og játaði Auðun Georg að hafa átt fund með formanni útvarpsráðs í gær. Í fyrstu neitaði hann að fundurinn hefði átt sér stað en þegar á hann var gengið viðurkenndi að fundurinn hefði farið fram og sagði það vera trúnaðarmál sem þar hefði farið fram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×