Innlent

Ummæli Fischers verði rannsökuð

Íslenskur fornleifafræðingur í Danmörku hefur óskað eftir því að ríkissaksóknari hefji opinbera rannsókn á ummælum Bobbys Fischers um gyðinga. Ríkislögreglustjórinn og allsherjarnefnd hafa einnig fengið erindi frá honum vegna málsins.  Samkvæmt hegningarlögum varðar það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að ráðast með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt, opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, fornleifafræðingur í Danmörku, finnst það mjög alvarlegt og mjög miður að verið sé að bjóða manni, sem vitað er að hefði jafn sterkar skoðanir og Fischer á gyðingum, íslenskt ríkisfang. Hann kveðst skilja mannúðarástæðurnar fyrir því að bjóða honum til Íslands, og að taugar séu til hans vegna einvígisins árið 1972, en ekki að það sé þolað að íslenskur ríkisborgari, eða einhver annar, fari um og dreifi svæsnu hatri á öðrum trúarhópum, kynþáttum eða öðrum hópum, án þess að því sé andmælt. Vilhjálmur hafði áður skrifað allsherjarnefnd Alþingis þegar ríkisborgararéttur Fischers var til umræðu en segir nefndina ekki hafa skráð erindi sitt né tekið það fyrir á fundum nefndarinnar. Hann hefur nú skrifað nefndinni og sagt að hann ætli að kynna málið fyrir samtökum sem fást við mannréttindi og réttindamál gyðinga. Þá hefur hann kært málsmeðferðina til forseta Alþingis og umboðsmanns Alþingis. Vilhjálmur segir þetta gefa hættulegt fordæmi, enda hafi íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að sporna gegn gyðingahatri.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×