Innlent

Auðun hafði engin mannaforráð

"Auðun Georg hefur meiri reynslu almennt séð í rekstrarmálum heldur en nokkur annar af umsækjendum," sagði Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri í Kastljóssviðtali í fyrrakvöld. Heimildir Fréttablaðsins innan Marel segja að starf Auðuns Georgs fyrir Marel í Asíu var í því fólgið að samræma starfsemi umboðsfyrirtækja Marel í Suðaustur-Asíu. Eina söluskrifstofa Marel í Suðaustur-Asíu er í Taílandi en annars hefur fyrirtækið umboðsfyrirtæki á sínum vegum á svæðinu. Auðun Georg hafði umsjón með sölustarfi umboðsfyrirtækjanna og var staðsettur hér á Íslandi. Hann fór ekki með nein bein mannaforráð heldur hafði samskipti við umboðsmenn og sjálfstæð fyrirtæki. Auðun Georg fór ekki með rekstur fyrirtækisins í Suðaustur-Asíu, þótt hann hafi haft milligöngu um samningagerð. Meirihluti útvarpsráðs lagði mikið upp úr því að fréttastjóri Ríkisútvarpsins hefði reynslu af rekstri, samkvæmt því sem fram kom í máli Markúsar Arnar. "Auðun Georg hefur verið forstöðumaður eins framsæknasta fyrirtækis á Íslandi sem hefur verið að sækja fram á erlendum mörkuðum og alþjóðasviðinu. Hann hefur verið starfandi sem markaðsstjóri fyrir Marel í fjarlægari Austurlöndum og ég tel það nú að það sé viðbót í þekkingarbrunninn hérna inni í Ríkisútvarpinu [...]. Útvarpsráðið hefur lagt höfuðáherslu á það, vegna fjárhagslegrar útkomu fréttastofu Útvarpsins að undanförnu, þar sem árvisst hefur verið farið fram úr áætlunum, að það verði að fá þarna til forystu mann sem að getur tekið á þessu rekstrarlega dæmi," sagði Markús Örn. "Auðun Georg hefur verið að stýra þessari starfsemi fyrir þetta stóra fyrirtæki sem er orðið alþjóðlegt fyrirtæki og hefur verið að sækja út á erlendum mörkuðum, fyrir nátttúrlega hönd forystu þess," sagði Markús Örn jafnframt. Þegar Markús Örn var spurður hvort hann teldi Auðun Georg vera með meiri rekstrarreynslu heldur en til dæmis Jóhann Hauksson, sem hefur stýrt Rás 2 með um 180 milljónir í veltu og 40-50 manns undir sinni stjórn, sagðist hann ekki efast um það. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í Auðun Georg í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×