Innlent

Engin lausn í fréttastjóramáli

Formaður Félags fréttamanna kom ekki sáttur af fundi útvarpsstjóra í morgun vegna ráðningar Auðuns Georgs Ólafssonar í starf fréttastjóra Útvarps. Hann segir enga lausn hafa fundist á málinu enn þá. Formaður Félags fréttamanna, Jón Gunnar Grétarsson, og Broddi Broddason, fréttamaður á Ríkisútvarpinu, fóru á fund Markúsar Arnar Antonssonar klukkan tíu í morgun til að ræða þær kröfur fréttamanna að útvarpsstjóri endurskoðiði ákvörðun sína um að ráða Auðun Georg Ólafsson sem fréttastjóra fréttastofu Útvarps. Jón Gunnar segir að tilefni fundarins hafi verið að óska eftir niðurstöðu og rökum fyrir ákvörðun útvarpsstjóra vegna ráðningarinnar. Óskað hafi verið eftir fundinum fyrir helgi og af honum hafi orðið morgun. Rætt hafi verið ítarlega á fundinum um ráðningarferlið, ákvörðun útvarpsstjóra, sem hann hafi gert grein fyrir sjálfur, og niðurstöðu Félags fréttamanna. Jón Gunnar segist hvorki ganga sáttur né ósáttur af fundinum en gott sé að menn ræðist við og geri ítarlega grein fyrir sínum sjónarmiðum. Málinu sé hins vegar ekki lokið. Aðspurður hvort hann bindi enn þá vonir við að útvarpsstjóri afturkalli ákvörðun sína að ráð Auðun Georg fréttastjóra segir Jón Gunnar að það sé einlæg ósk Félags fréttamanna. Að sjálfsögðu verði hann að bera þá von í brjósti að það komi sú niðurstaða úr þessu þar sem allir verði sáttir og komi uppistandandi út úr þessu. Ekki sé skemmtilegt að lenda í því að vera með fjölmargt óánægt starfsfólk annars vegar og óánægðan útvarpsstjóra hins vegar. Spurður hver næstu skref fréttamanna verði segir Jón Gunnar að stjórn Félags fréttamanna hafi rætt málið lauslega og þá sé félagsfundur í kvöld þar sem nýr kjarasamningur við ríkið verði kynntur. Hann geri ráð fyrir að ráðningarmálin verði einnig rædd á þeim fundi. Ákveðin biðstaða sé þó komin í málið því Bogi Ágústsson, forstöðumaður fréttasviðs sem metið hafi umsækjendur, sé í útlöndum og þá sé útvarpsstjóri að fara utan í vikunni á fund. Menn vegi því og meti stöðuna í málinu og hvað gerist næst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×