Innlent

Samstarfið yrði varla án átaka

Jón Gunnar Grjetarsson, formaður Félags fréttamanna á Ríkisútvarpinu, segist ekki sjá fyrir sér hvernig samstarf fréttamanna og nýráðins fréttastjóra fréttastofu Útvarps geti gengið upp án átaka og þess sem hann kallar sérkennilegra vinnubragða. Ekkert varð af fundi þeim með Markúsi Erni Antonssyni útvarpsstjóra sem stjórn Félags fréttamanna á Ríkisútvarpinu fór fram á snemma í gærmorgun. Jón Gunnar sagði menn bíða viðbragða Markúsar en standa fast við þær ályktanir sem honum hafi verið sendar. Í þeim ályktunum er farið fram á að útvarpsstjóri endurskoði hið fyrsta þá ákvörðun sína að ráða Auðun Georg Ólafsson í starf fréttastjóra Ríkisútvarpsins. Enn fremur hefur verið skorað á Auðun Georg að endurskoða sína afstöðu í kjölfar þess uppnáms sem ráðning hans hefur ollið. Jón Gunnar segir að meðan Markús Örn útvarpsstjóri sitji fastur við sinn keip standi Félag fréttamanna fast við samþykktir sínar og ályktanir. "Samþykkt okkar um að lýsa yfir vantrausti á Markús Örn stendur meðan hann sér ekki ástæðu til að svara. Hvað Auðun Georg varðar áttum við stutt spjall saman en þar kom ekkert nýtt fram og það er því biðstaða áfram." Formaðurinn sagði enn fremur að margir veltu uppsögnum fyrir sér á fréttastofu Ríkisútvarpsins og hljóðið í starfsmönnum væri eðlilega afar þungt. Þegar hefur einn starfsmaður sagt formlega upp vegna ráðningar Auðuns; Jóhann Hauksson, dagskrárstjóri Rásar 2.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×