Innlent

Útvarpsstjóri brást

a mark
Vísir

Engar umræður fóru fram á útvarpsráðsfundi um þá fimm umsækjendur um stöðu fréttastjóra Útvarpsins sem sérstaklega hafði verið mælt með. Formaður útvarpsráðs, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, las upp yfirlýsingu í upphafi fundar þess efnis að meirihluti ráðsins, fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, myndu mæla með Auðuni Georg Ólafssyni til starfsins. Útvarpsstjóri bar ekki fram ósk um faglega umfjöllun ráðsins á hæfni umsækjenda og brást þar með hlutverki sínu. 

Þetta segir Kjartan Eggertsson, fulltrúi Frjálslynda flokksins í útvarpsráði. 

"Fulltrúar meirihlutans voru búnir að ákveða þetta fyrir fundinn og yfirlýsingin var lesin upp strax í upphafi þess dagskrárliðar þar sem tekin var fyrir ráðning fréttastjóra," sagði hann. "Ég átti von á að tekin yrði umræða um þetta góða fólk sem hafði verið mælt með til starfans, en sú umræða fór aldrei fram. Meðmæli meirihlutans bar að með þessum hætti sem ég hef lýst, og minnihlutinn var alveg óvarinn fyrir þessum vinnubrögðum og óundirbúinn, enda erfitt að ætla sér að gera eitthvað þegar séð er að meirihlutinn ætlar bæði að hunsa álit og meðmæli stjórnenda útvarpsins og ekki einu sinni rökræða neitt við aðra útvarpsráðsmenn um hæfni þeirra sem voru þarna efstir á blaði." 

Kjartan sagði að Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri hefði gefið það í skyn, þegar hann hefði verið búinn að ráða Auðun Georg, að hann hefði verið tilneyddur til þess vegna þess að það hefðu verið einu tilmælin sem komið hefðu fram. "Hann er að reyna að skjóta sér undan ábyrgð. Hann gerði enga tilraun til þess á fundinum að hann óskaði eftir að við ræddum um þá sem höfðu bestu meðmælin. Þarna brugðust bæði útvarpsstjóri og útvarpsráð. Þetta gæti aldrei viðgengist í venjulegu fyrirtæki sem væri á samkeppnismarkaði. Þar myndu menn gera upp málin en í útvarpinu virðist vera hægt að gera hvað sem er í pólitísku skjóli."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×