Innlent

Harma aðför að hlutleysi RÚV

Hollvinir Ríkisútvarpsins hafa sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að Markús Örn Antonsson réð Auðun Georg Ólafsson fréttastjóra á fréttastofu Útvarps í gær. Þar harma samtökin þá pólitísku aðför að lögbundnu hlutleysi Ríkisútvarpsins og þar með að lýðræðinu, sem ráðningin feli í sér. Enn einu sinni hafi stjórnvöld orðið ber að því að láta flokkspólitíska hagsmuni ráða og líta fram hjá faglegum sjónarmiðum þegar ráðið er í mikilvæg opinber störf. Þá segir einnig í yfirlýsingunni að það sé ólíðandi að sá umsækjenda, sem hafi minnsta reynslu og þekkingu á því starfi sem ráðið var til, sé tekinn fram yfir fréttamenn með áratugareynslu hjá fréttastofu þessa almannaaútvarps. Hollvinir Ríkisútvarpsins hvetji því Markús Örn Antonsson útvarpsstjóra til að endurskoða ákvörðun sína og meta að verðleikum þá fimm umsækjendur sem Bogi Ágústsson, forstöðumaður fréttasviðs RÚV, hafi talið hæfasta til starfans. „Það er brýnt að valinn maður sé í hverju rúmi flaggskips íslenskra fréttamiðla og að þess sé gætt að sú reynsla og þekking, sem hefur skapast á fréttastofu útvarpsins undanfarna áratugi, sé borin áfram af þeim hæfasta starfskrafti sem völ er á. Það er skýlaus krafa okkar sem velunnara RÚV og dyggra hlustenda, að við stjórninni taki maður sem hefur reynslu og kunnáttu til að stýra því öfluga starfi sem þar hefur verið unnið undir styrkri stjórn fyrri fréttastjóra,“ segir að endingu í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×