Innlent

Mælt með þeim síst hæfa

image

Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í útvarpsráði mæltu í gær með Auðuni Georg Ólafssyni sölustjóra í starf fréttastjóra Ríkisútvarpsins. Hann var ekki einn þeirra fimm umsækjenda sem Bogi Ágústsson, forstöðumaður fréttasviðs Ríkisútvarpsins, mælti sérstaklega með af þeim tíu sem sóttu um. 

„Það er óþarfi að hafa stór orð um þetta, þarna er mælt með þeim umsækjanda sem við snögga yfirsýn virðist ekki sá hæfasti þannig að notað sé stílbragðið úrdráttur,“ segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrum útvarpsráðsmaður. Útvarpsstjóri, Markús Örn Antonsson, skipar í stöðuna en Félag fréttamanna og Starfsmannafélag RÚV lýstu yfir óánægju sinni með meðmæli útvarpsráðs í gær með því að senda útvarpsstjóra bréf þar sem hann er hvattur til þess að láta fagleg sjónarmið ráða við skipun í stöðuna. 

„Við bíðum bara eftir ákvörðun Markúsar Arnar og biðjum hann um að láta fagleg sjónarmið ráða,“ segir Þórdís Arnljótsdóttir, varaformaður Félags fréttamanna og fréttamaður á Sjónvarpinu. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna á fundi útvarpsráðs og létu bóka að pólitískt kjörnir fulltrúar ættu ekki að skipta sér af ráðningum starfsmanna RÚV. 

„Ég vil ekkert tjá mig um málið á meðan það er í farvegi hjá útvarpsstjóra,“ segir Auðun Georg. Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður útvarpsráðs, segir að Auðun Georg hafi uppfyllt best hæfiskröfur miðað við starfsauglýsingu. "Þótt hann sé ungur hefur hann mikla reynslu, bæði af fréttamennsku og rekstri auk þess að hafa stjórnunarhæfileika," segir Gunnlaugur. Spurður hvort það hafi ráðið einhverju um valið að Georg er framsóknarmaður og náinn vinur helstu ráðgjafa Framsóknarflokksins, Björns Inga Hrafnssonar, Páls Magnússonar og Steingríms Ólafssonar segir Gunnlaugur: „Ég er ekkert í slíkum persónunjósnum.“ 

Ekki náðist í Markús Örn í gær en líklegt er að hann tilkynni ákvörðun sína í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×