Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli, ofan Akureyrar, verður opnað klukkan 10 á laugardaginn. Guðmundur Karl Jónsson, staðarhaldari í Hlíðarfjalli, segir að svo snemma vetrar hafi svæðið ekki verið opnað í hartnær aldarfjórðung eða frá árinu 1981 en þá var svæðið opnað 17. október.
Skíðasvæði Ólafsfirðinga var opnað í gær en svæðið var opnað um miðjan desember í fyrra. Óli Hjálmar Ingólfsson, umsjónarmaður svæðisins, segir óvenju mikinn snjó í fjallinu miðað við árstíma og gott skíðafæri. Stefnt er að opnun skíðasvæðisins í Tindastóli við Sauðárkrók á morgun og segir Viggó Jónsson, umsjónarmaður svæðisins, að gangi það eftir verði skíðasvæðið opið til klukkan 21 annað kvöld. Dalvíkingar eru að koma upp snjóframleiðslukerfi í Böggvisstaðafjalli og því verður svæðið ekki opið um helgina og Siglfirðingar vilja fyrst sjá hvort snjórinn sé kominn til að vera áður en skíðasvæðið verður opnað.