Erlent

Lögsækir ekki Bandaríkjamenn

Bobby Fischer hefur fallið frá lögsókn á hendur bandarískum stjórnvöldum sem þingfest var fyrir hann í San Diego í Bandaríkjunum daginn sem hann var látinn laus í Japan og hélt til Íslands. Greint er frá þessu í blaðinu San Diego Union-Tribune og þannig komist að orði að þennan dag hafi hann haldið í útlegð til Íslands og að það sé lítið land í Norður-Atlantshafinu. Að sögn Richards Vattuone, lögmanns sem ætlaði að reka málið, hafði Fischer gert kröfur upp á 200 milljónir dollara í skaðabætur fyrir það að bandarísk stjórnvöld hafa hundelt hann síðan árið 1992 þegar hannn telfldi í Júgóslavíu í trássi við viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna og að það hafi leitt til handtöku hans í Japan og illrar meðferðar á honum þar. Lögmaðurinn segir að Fischer hafi ekki áhuga á frekari málarekstri og vilji lifa lífi sínu í friði. Hann útilokar þó ekki með öllu einhvers konar málarekstur en hann yrði þá í nafni stuðningsmanna hans án þes að nokkuð hafi verið ákveðið um það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×