Innlent

Ný fjárhagsáætlun borgarinnar

Nýr borgarstjóri, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, kynnti fjárhagsáætlun næsta árs í dag. Þar er gert ráð fyrir lækkun skulda upp á einn og hálfan milljarð og aukinni þjónustu við borgarbúa.  Opnaðar verða þjónustmiðstöðvar fyrir íbúa í hverfum, símaver verður opnað og rafræn þjónusta á vef borgarinnar verður efld. Ný yfirbyggð sundlaug í Laugardal verður tekin í notkun, íþrótta- og sýningarhöll í Laugardal opnuð og framkvæmdir við nýja virkjun á Hellisheiði hefjast. Steinunn segir að á næsta ári verði skuldir borgarinnar lækkaðar um einn og hálfan milljarð, hvort sem litið er til heildarskulda eða hreinna skulda, og skuldir per íbúa muni lækka um 14 þúsund krónur á milli ára. Hækkuð útsvarsprósenta borgarbúa skilar borgarsjóði 740 milljónum á næsta ári. Sú upphæð, þó veruleg sé, skiptir ekki sköpum í fjárhagsáætluninni. Steinunn segir það ábyrgðarhluta sveitarfélaganna, á meðan þau krefja ríkið um aukna tekjustofna til framkvæmda, að þau fullnýti ekki sína eigin tekjustofna. Spurð hvort hún telji ekki að fólk myndi sjálft vilja halda í þessa peninga segir hún þetta bara spurningu um pólitík. Í Reykjavík sé þjónustugjöldum haldið í lágmarki, ólíkt t.d. Seltjarnarnesi, og tekjurnar í stað þess auknar í gegnum útsvarið. 


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×