Innlent

Kabúlflugvöllur úr okkar umsjá

Davíð Oddsson utanríkisráðherra flutti í gær skýrslu um utanríkismál á Alþingi, í fyrsta sinn í utanríkisráðherratíð sinni. Í ræðu sinni kom Davíð víða við en tæpast verður þó sagt að margt nýtt hafi verið þar að vinna. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Þótt Davíð og Halldór Ásgrímsson hafi skipst á stólum þá eru sömu flokkar enn í ríkisstjórn og stjórnarsáttmálinn að sjálfsögðu óbreyttur. Stjórnarandstæðingar höfðu ýmislegt um ræðu Davíðs að segja en fæst af því var gott. Fundur með Powell framundan Varnarmálin hafa verið fyrirferðarmikil í umræðunni undanfarin misseri og vék utanríkisráðherra strax að þeim í ræðu sinni í gær. Tjáði hann þingheimi að í næstu viku myndi hann eiga fund með Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um framtíð herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Davíð benti á að sökum þess hve vöxtur farþegaflugs hefur verið mikill væru stjórnvöld reiðubúin að semja um hvernig Íslendingar gætu tekið meiri þátt í kostnaði við rekstur flugvallarins. Eftir sem áður yrði mikil áhersla lögð á að varnarviðbúnaður væri með fullnægjandi hætti. Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var einn þeirra sem drap á varnarmálum þjóðarinnar. Kvartaði hann yfir því að markmið íslenskra stjórnvalda í þessum efnum væru óljós og kallaði jafnframt eftir svörum um hvaða lágmarksviðbúnaður ætti að vera til staðar á Keflavíkurflugvelli. Undirstrikaði Guðmundur Árni nauðsyn þess að umræða færi fram í þjóðfélaginu um varnir landsins og þátttöku Íslendinga í þeim. Vargöld í Mið-Austurlöndum Ófriður hefur geisað í Mið-Austurlöndum um langt skeið og eru horfurnar þar tvísýnar. Davíð staldraði sérstaklega við ástandið í Írak, Íran, Afganistan og Palestínu og verður ekki annað sagt en að hann hafi náð athygli þeirra þingmanna sem hlýddu á mál hans. Meðal annars ítrekaði hann að íslensk stjórnvöld væru enn þeirrar skoðunar að rétt hefði verið ráðast inn í Írak og fullyrti jafnframt að mikið hefði áunnist í endurreisnarstarfi þrátt fyrir að ýmis ljón hefðu verið í veginum. "Meinfýsnishlakkandi úrtölumenn víða um heim hafa einblínt á erfiðleikana sem vissulega er við að etja í Írak og virðast telja deilur um aðdraganda innrásarinnar skipta meira máli en frelsi og framtíðarvonir Íraka," sagði hann og bætti því við að enginn gæti með sanngirni haldið öðru fram en að íraska þjóðin sé betur sett nú en undir Saddam Hussein. Utanríkisráðherra vottaði þessu næst palestínsku þjóðinni samúð sína og ríkisstjórnarinnar vegna fráfalls Jassers Arafat og lét í ljós ósk sína um að eftirmönnum hans tækist að koma á friði í landinu. Auðheyrt var á Davíð að honum þótti Palestínumenn ekki hafa staðið sig sem skyldi í þessum efnum. Stjórnarandstæðingar gerðu nokkurn aðsúg að utanríkisráðherra vegna þessa hluta ræðunnar. Guðmundur Árni krafðist þess að fá að vita hvort Davíð hefði átt við stjórnarandstöðuna þegar hann talaði um "meinfýsnishlakkandi úrtölumenn", þorra íslensku þjóðarinnar eða jafnvel meirihluta hins vestræna heims. Sagði hann ósmekklegt að gefa í skyn að í öllu þessu fólki hlakkaði yfir ástandinu. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri-grænna, minntist þess í upphafi máls síns að góðgjarn maður hefði eitt sinn sagt að jafnan bæri að leita að hinu jákvæða í máli fólks. "Aldrei óraði mig fyrir því að utanríkisráðherra myndi leggja slíka þraut fyrir okkur," sagði hann áður en hann tók til við að gagnrýna einstök atriði í máli Davíðs. Fór Ögmundur allhörðum orðum um Íraksmálin og eftir að hafa dregið upp talsvert frábrugðna mynd af ástandinu og bent á að gereyðingarvopn væru ófundin spurði hann einfaldlega: "Hverslags rugl er þetta eiginlega?" Því næst vék Ögmundur að stöðu og horfum í Ísrael og var á honum að heyra að utanríkisráðherra drægi upp helst til einfaldaða mynd af orsökum ófriðarins. Davíð varðist orðum Ögmundar fimlega og benti á að vera fjölþjóðahersins í Írak væri í umboði Sameinuðu þjóðanna og dró þar að auki í efa trúverðugleika nýlegrar skýrslu um mannfall borgara í efa. Ögmundur lét þó ekki slá sig út af laginu heldur sagði að ólíkt ríkisstjórnum nágrannalandanna neiti íslensk stjórnvöld að horfast í augu við óþægilegar staðreyndir Stjórn Kabúlflugvallar úr höndum Íslendinga Íslenskir friðargæsluliðar hafa staðið í ströngu í Afganistan að undanförnu og hrósaði Davíð þeim fyrir störf sín. Því vakti athygli að utanríkisráðherra tjáði þingheimi að stjórn flugvallarins myndi færast í hendur annars aðildarríkis Atlantshafsbandalagsins á næsta ári. Þá kæmi til greina í staðinn að Ísland leggi af mörkum liðsmenn til annarra friðargæsluverkefna í landinu. Fyrr í ræðunni hafði Davíð viðrað þann möguleika að Ísland tæki þátt í þjálfun íraskra öryggissveita á vegum NATO. Guðmundur Árni hvatti í þessu sambandi til þess að Íslendingar veldu sér verkefni við hæfi og varaði við því að við tækjum að okkur slíka þjálfun. Taldi hann réttara að þjóðin léti gott af sér leiða á mannúðlegri vettvangi. Þau Siv Friðleifsdóttir Framsóknarflokki, og Magnús Þór Hafsteinsson Frjálslyndum, tókust sömuleiðis á um þessi efni. Sagði Magnús Þór að ekki væri nauðsynlegt fyrir Íslendinga að vera á listanum yfir "hinar staðföstu þjóðir" til að geta tekið þátt í uppbyggingarstarfi á átakasvæðum. Siv taldi hins vegar órökrétt fyrir Ísland að fara nú af listanum því af öllum verkefnum hernámsliðsins í Írak væri eingöngu uppbyggingarstarfið eftir. Magnús benti á að herlög ríktu í landinu og stórsókn bandamanna á Falluja stæði nú yfir þannig að orð Sivjar ættu ekki við rök að styðjast en hún svaraði að bragði að færu Íslendingar af listanum sendum við þau skilaboð að við vildum ekki taka þátt í uppbyggingarstarfi. Skeggrætt lengi dags Umræður um skýrslu utanríkisráðherra stóðu mestan hluta gærdagsins og var margt fleira til umræðu en þau mál sem tíunduð eru hér, til dæmis breytt hlutverk NATO og nýtt umhverfi í Evrópumálunum. Fjölmargir þingmenn kvöddu sér hljóðs enda mikilvæg mál á dagskránni sem snertu hag landsmanna og heimsbyggðarinnar allrar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×