Erlent

Ungt fólk getur tryggt Kerry sigur

Ungir kjósendur geta tryggt John Kerry sigur í bandarísku forsetakosningunum ef þeir mæta á kjörstað í meira mæli en hingað til. Þeir eru mun hlynntari Kerry en George W. Bush Bandaríkjaforseta samkvæmt nýjum skoðanakönnunum. Því er spáð að ungir kjósendur verði allt að tveimur milljónum fleiri en fyrir fjóurm árum og því talið að þeir geti ráðið úrslitum. Kerry hefur nær tuttugu prósentustiga forskot á Bush meðal kjósenda undir þrítugu samkvæmt nýrri könnun ABC sjónvarpsstöðvarinnar. Samkvæmt henni fengi Kerry 57 prósent atkvæða en Bush 39 prósent. Munurinn er minni í annarri nýlegri könnun, frá Harvard University Institute of Politics, en samt verulegur, samkvæmt henni styðja 52 prósent Kerry en 39 prósent Bush. Stuðningsmenn flokkanna og ýmis samtök hafa lagt mikla áherslu á það fyrir kosningarnar að fá ungt fólk til að skrá sig á kjörskrá og kjósa. Þetta ýtir undir kosningaáhuga ungs fólks en ekki síður það hversu mjótt var á mununum fyrir fjórum árum. "Ég held það hafi verið gott fyrir þjóðina, það sýndi fram á að hvert atkvæði skiptir máli," sagði háskólaneminn Max Miller við CNN og sagðist telja að deilurnar um síðustu forsetakosningar og harðar deilur um málefni nú geri það að verkum að fleira ungt fólk kjósi en ella. Eitt er vert að hafa í huga. Frá því kosningaaldurinn var lækkaður í átján ár á tímum Víetnamstríðsins hefur sá frambjóðandi alltaf fengið fleiri atkvæði á landsvísu sem hefur notið mest stuðnings ungra kjósenda í skoðanakönnun. Það dugði þó ekki til fyrir fjórum árum þegar Al Gore fékk fleiri atkvæði en Bush en færri kjörmenn. Stuðningur ungra kjósenda við Kerry nú getur ráðið úrslitum, einkum vegna þess að í ríkjum eins og Ohio, Pennsylvaníu og Flórída er svo naumt á munum að mikið fylgi meðal yngri kjósenda getur skipt sköpum og tryggt Kerry fleiri kjörmenn en Bush.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×