Innlent

Launamunur kynjanna óbreyttur

Það er best að vera karlmaður á fertugsaldri með háskólapróf. Þá eru launin í það minnsta hærri en hjá öðrum miðað við nýja launakönnun VR. Samkvæmt henni hafa heildarlaun félagsmanna VR hækkað um fimm prósent frá því í fyrra en vinnutíminn hefur lengst og launamunur kynjanna er óbreyttur. Meðalheildarlaun VR-félaga hækkuðu úr 249 þúsund krónum á mánuði í fyrra í 273 þúsund núna. Þetta er fimm prósenta hækkun. Hins vegar hefur vinnuvika félagsmanna lengst og vinna þeir nú að meðaltali tæplega 45 klukkustundir á viku. Það er einni og hálfri klukkustund meira en í fyrra. Þessi þróun vekur nokkra athygli en þetta er annað árið í röð sem vinnutími félagsmanna lengist á sama tíma og verkalýðsfélög hafa lagt áherslu á styttingu vinnutímans á síðustu árum. Það kemur ekki á óvart að þeir sem vinna lengst er yngsta fólkið og eldra fólkið vinnur styst. Þá vinnur langskólagengið fólk lengur en aðrir en könnunin sýnir einnig að því lengur sem fólk vinnur, því óánægðara er það í vinnunni. Hæstu launin hafa forstöðumenn og sviðsstjórar, eða 424 þúsund á mánuði. Lægstu launin hefur hins vegar afgreiðslufólk á kassa, 154 þúsund krónur á mánuði. Þeir félagsmanna VR sem hækkuðu mest var sölu- og afgreiðslufólk en laun þess hækkuðu að meðaltali um tíu prósent á milli ára. Laun flestra hækkuðu eitthvað en þó lækkuðu laun í einstökum hópum stjórnenda og sérfræðinga. Könnunin sýnir ljóslega að menntun skiptir máli hvað laun varðar. Háskólamenntað fólk í VR hefur að meðaltali 32% hærri heildarlaun en aðrir. Fólk á milli þrítugs og fertugs er með hærri laun en aðrir og loks er bilið á milli kynjanna ekkert að minnka; karlar eru að meðaltali með 307 þúsund krónur en konur 252 þúsund. Þessi munur er 22 prósent eða sami munur og í könnuninni í fyrra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×