Innlent

Bjarni um nýtt stjórnarmynstur: „Ég er ekki með neina fyrirframgefna niðurstöðu“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bjarni Benediktsson ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum í dag.
Bjarni Benediktsson ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum í dag. Vísir/Eyþór
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi við fjölmiðla eftir að Guðni Th. Jóhannesson, forseti, veitti honum umboð til stjórnarmyndunar á Bessastöðum fyrir stundu. Hann segist ekki vera með ákveðna stjórn í huga og munu reyna að ná tali af leiðtogum hinna stjórnmálaflokkana í dag.

„Ég er ekki með neina fyrirframgefna niðurstöðu og er ekki með neina valkosti útilokaða,“ sagði Bjarni sem mun tala við leiðtoga þeirra flokka sem eiga sæti á þingi.

Bjarni var spurður um möguleikana á því að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartar framtíðar yrðu mynduð en slíkt hefur verið sagt í kortunum. Bjarni sagði að það væri möguleiki sem hefði þó ákveðin galla.

Knappur meirihluti

„Þetta er augljóslega einn möguleiki og gallinn við hann er hversu knappur meirihlutinn er,“ sagði Bjarni en slíkur meirihluti myndi njóta stuðnings 32 af 63 þingmönnum. Hann útilokaði einnig ekki að Framsóknarflokkurinn myndi eiga aðild að næstu ríkisstjórn.

Bjarni segir æskilegt að ný ríkisstjórn verði myndu fljótlega og býst hann ekki við að það taki langan tíma.

Ég horfi yfir sviðið og við erum ekki að rísa upp úr hruni eins og 2009. Ytri aðstæður eru góðar þó að spennan sé helst á vinnumarkaði. Að því leyti er ekkert í ytri aðstæðum að þetta taki margar vikur ef menn ná saman í helstu málum.“

Bjarni ræddi við fjölmiðla á Bessastöðum og má sjá upptöku frá því að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×