Fleiri fréttir

Stóráfallalausir páskar þrátt fyrir hraðakstur

Páskahelgin hefur verið stóráfallalaus og umferðin gengið greiðlega fyrir sig. Umferðin dreifist eitthvað því margir komu heim úr bústöðum og ferðalögum í gær. Einn og einn ökufantur hefur þó látið á sér kræla og stofnað lífi sínu og annarra í stórhættu með ofsaakstri.

Jómfrúarferð Baldurs VIII á Íslandi

Baldur áttundi fór sínar fyrstu ferðir yfir Breiðafjörðinn í dag. Örfáir árrisulir ferðamenn tóku sér far norður yfir fjörðinn en fullbókað var, og biðlisti, frá Brjánslæk. Ferjan hafði tafist út af mótvindi á leið sinni frá Hollandi, þaðan sem hún var keypt en kom loks til Stykkishólms á laugardag.

Hundruð milljóna í endurgreiðslu

Dagsbrún, sem hyggst gefa út fríblað í Danmörku, fær hundruð milljóna króna í endurgreiðslu frá danska ríkinu þar sem notast verður við dönsku póstþjónustuna við dreifingu blaðsins. Ritstjórar þeirra dagblaða, sem nú eru á markaði, eru ekki uppnumdir, en þó sannfærðir um að þeir muni standa af sér íslensku samkeppnina.

Von á frekari bensínhækkunum

Bensínverð hefur hækkað um nærri þrettán krónur á einum mánuði og er bensínverð í hæstu hæðum og hvergi hærra en hér á landi. Búast má við frekari hækkunum á næstunni hér á landi vegna hækkana á heimsmarkaði.

Fjórir í gæsluvarðhaldi vegna stórs fíkniefnamáls

Fjórir menn, þrír Íslendingar og einn Hollendingur, voru úrskurðaðir, í Héraðsdómi Reykjavíkur, í þriggja vikna gæsluvarðhald á föstudaginn langa vegna eins stærsta fíkniefnamáls sem komið hefur upp hérlendis. Gríðarlegt magn fíkniefna fannst í iðnaðarhúsnæði í Reykjavík á fimmtudagskvöld.

Fríblað Dagsbrúnar í Danmörku

Dagsbrún, sem hyggst á útgáfu fríblaðs í Danmörku, fær hundruð milljóna króna í endurgreiðslu frá danska ríkinu þar sem notast verður við dönsku póstþjónustuna við að dreifa blaðinu. Ritstjórar þeirra dagblaða, sem nú eru á markaði, eru sannfærðir um að þeir muni standa af sér íslensku samkeppnina.

Viðbygging við stjórnarráðið

Hugmyndir eru uppi um að stækka Stjórnarráðshúsið svo um munar, með byggingu sex hæða húss á milli Bankastrætis og Hverfisgötu.

Björgunarsveitarmenn hætt komnir

Vanir björgunarmenn voru hætt komnir þegar þeir leituðu tveggja manna á Langjökli á föstudaginn langa. Framkvæmdastjóri Landsbjargar segir hjálparsveitir iðulega fá útköll sem rekja má til andvaraleysis fólks, sem leggur illa búið í ferðir um hálendi Íslands.

Fuglinn ekki sýktur af H5N1

Fuglinn sem fannst dauður á Elliðavatni fyrr í mánuðinum var ekki sýktur með hinu mannskæða H5N1 afbrigði fuglaflensu. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar sem fram fór í Svíþjóð. Fuglinn fannst dauður í Elliðaárdal þann 8. apríl og ástæða þótti til sýnatöku og frekari rannsóknar.

Dagsbrún fær 730 milljóna endurgreiðslu frá danska ríkinu

Dagsbrún, sem hyggur á útgáfu fríblaðs í Danmörku, fær um 730 milljónir íslenskra króna endurgreiðslu frá danska ríkinu þar sem notast verður við dönsku póstþjónustuna við að dreifa blaðinu. Ritstjórar þeirra dagblaða sem nú eru á markaði segja ljóst að þeir munu þurfa að gera breytingar á blöðunum til að standa af sér íslenskættuðu samkeppnina.

Hvalveiðisinnar í meirihluta Alþjóðahvalveiðiráðsins

Hvalveiðisinnar eru komnir í meirihluta Alþjóðahvalveiðiráðsins að mati breska blaðsins Independent. Þessi breytta staða er árangur margra ára starfs Japana en Íslendingar og Norðmenn hafa einnig komið þar við sögu.

Maður henti sér í höfnina

Maður henti sér í höfnina í Reykjavík um klukkan þrjú í nótt. Hann var ölvaður og sagðist hafa fengið nóg af lífinu. Honum fannst sjórinn hins vegar mjög kaldur og hætti snögglega við þegar ofan í var komið og fór upp úr aftur.

Engin böll á annan í páskum

Stórir dansleikir, sem siður var að halda á aðfaranótt annars í páskum, heyra sögunni til. Þetta kemur til af því að aðfaranótt páskadags er ekki jafnheilög og hún var. Nú má veita áfengi til klukkan þrjú allar nætur páskafrísins nema á föstudaginn langa og því dreifist dansgleði landsmanna meira en áður.

Opið á páskadag

Engin ástæða er til að örvænta þó að gleymst hafi að kaupa í páskamatinn eða þótt páskaeggið hafi ekki verið á sínum stað í morgun. Nú er nefnilega hægt að skjótast í búð og ná í sveppi í sósuna eða ís í eftirrétt, þó að í dag sé einn helgasti dagur kirkjualmanaksins.

Um verðbólguskot að ræða ekki verðbólguskeið

Aflýsa þarf stóriðjuframkvæmdum og skattalækkunum ríkisstjórnarinnar ef halda á verðbólgu í skefjum á næstu misserum. Þetta segir formaður Samfylkingarinnar. Hún segir að á Íslandi sé komið verðbólguskeið en ekki skot.

Þarf lítið til að gleðja

Félagar í Rótarýklúbbi Reykjavíkur héldu í dag til Afríku en þar ætla þeir að styrkja ýmis verkefni eins og bólusetningu og fræðslu barna.

Risarisarækjufyrirtæki í burðarliðnum?

Áætlanir um að koma á fót eldi á risarækju í krafti jarðvarma á Íslandi í samvinnu við nýsjálenskt fyrirtæki eru langt á veg komnar. Tilraunir hafa gefist mjög vel og gangi allt eftir verður hér til risafyrirtæki innan skamms sem áætlað er að velti hundruðum milljóna króna.

Víða hátíðarguðþjónustur í dag

Hátíðarguðsþjónustur voru víða í kirkjum landsins í dag, páskadag. Páskarnir eru ein af helstu hátíðum kristinna manna en í dag er upprisu Jesú Krists minnst.

Hátíðin á enda

Hátíðin Aldrei fór ég suður sem haldin var í þriðja sinn á Ísafirði um helgina er á enda. Hátíðin tókst með afburðum vel að mati aðstandenda en talið er að allt að þrjú þúsund ferðamenn hafi verið í bænum þegar mest var.

Gauksi kominn aftur heim

Fagnaðarfundir urðu á lögreglustöðinni í Keflavík rétt fyrir þrjú þegar eigandi dísarpáfagauks sem villst hafði að heiman vitjaði fuglsins hjá lögreglunni. Eigandinn kom með búr fuglsins, - og gauksfrúin fékk að koma með.

Aldrei fór ég suður gengur vel

Hátíðin Aldrei fór ég suður hefur gengið vel, en henni lýkur í dag. Að sögn lögreglunnar hafa skemmtanahöld gengið vel og engin stórmál komið upp. Einn maður var tekinn með hálft gramm af hassi á hátíðinni, en honum sleppt eftir yfirheyrslur og verður hann líklega sektaður. Hassið fannst við hefðbundið eftirlit.

Hraðskreiður ökufantur í Borgarfirðinum

Ökumaður á sportbíl stakk lögregluna í Borgarnesi af í morgun á Borgarfjarðarbraut, sem liggur sunnan megin upp með Borgarfirði. Ekki er vitað nákvæmlega hvað maðurinn ók hratt en lögreglubíllinn fór mest upp í 187 kílómetra hraða, og ljóst að sportbíllinn hefur farið hraðar en það. Hestöflin dugðu þó skammt, því maðurinn fannst skömmu síðar og var sviptur ökuleyfi á staðnum og fær kauði réttindin ekki aftur í bráð.

Óvæntur liðsauki

Lögreglunni í Keflavík barst óvæntur liðsauki síðla í gær þegar þegar fjallmyndarlegur dísarpáfagaukur kom á lögreglustöðina. Líklegt þykir að gauksi hafi strokið að heiman og rati ekki til baka. Eigandi páfagauksins getur komið við á varðstofunni í Keflavík og vitjað gauksins, svo hann geti notið páskanna í faðmi fjölskyldunnar.

Reyndi að brjótast inn í bíl

Karlmaður var handtekinn um tvöleytið í nótt fyrir tilraun til að stela bíl. Maðurinn reyndi að komast inn í bílinn í Múlahverfinu í Reykjavík en hans varð vart þegar þjófavarnarkerfi í bílnum fór í gang. Maðurinn gistir nú fangageymslur.

Fjórir menn handteknir eftir átök í heimahúsi

Fjórir karlmenn voru handteknir eftir átök milli þeirra í samkvæmi í Breiðholti. Lögreglunni barst tilkynning í kringum miðnætti um að mikil læti bærust frá íbúð þar sem þeir voru staddir. Nokkrir samkvæmisgestir voru vopnaðir hnífum og voru undir áhrifum áfengis- eða vímuefna.

Einn gisti fangageymslur

Einn maður gisti í fangageymslum lögreglunnar á Akureyri í nótt en mikil skemmtanahöld voru í bænum. Maðurinn, sem er á þrítugsaldri var talsvert ölvaður og þótt hann hafi ekki gert mikið af sér var hann til leiðinda eins og lögreglan orðaði það sjálf.

Leiðindaveður á mörgum skíðasvæðum

Leiðindaveður er á mörgum skíðasvæðum landsins. Opið er á neðra svæðinu í Hlíðarfjalli í dag. Lokað er í Bláfjöllum og á skíðasvæði Ísfirðinga en þar á að athuga með opnun klukkan ellefu.

Einn fluttur á slysadeild eftir slagsmál

Ungur karlmaður var fluttur á slysadeild Landsspítala-Háskólasjúkrahús eftir slagsmál í miðborginni. Einhverjar ryskingar áttu sér stað milli hans og annars manns og lenti ungi maðurinn með hendina í rúðu, sem brotnaði, og skarst maðurinn nokkuð. Meiðsl hans voru þó ekki alvarleg.

Verður að búast við því versta

Í gær sinntu björgunarsveitir fimm hjálparbeiðnum, þar af þremur vegna vélsleðamanna. Vélsleðamaður sem NFS talaði við segir afar mikilvægt að búa sig undir það versta til þess að láta ekki breyttar veðuraðstæður koma sér í opna skjöldu. Ávallt skuli taka með sér meiri föt en þörf sé á í góðu veðri í upphafi ferðar og aukanesti, jafnvel þó ætlunin sé bara að fara í örstutta ferð.

Þúsund ára jarðhýsi í Garðabænum

Fornleifafræðikústar og -múrskeiðar fengu síðasta tækifærið í dag til að fletta hulunni af miðaldarústum í Akralandi í Garðabæ. Stórvirkari vinnuvélar taka nú við og reisa þar framtíðarbyggð nútímamanna. Uppgröfturinn á Virkishóli í Akralandi lætur ekki mikið yfir sér en ef vel er að gáð má sjá útlínur lítils mannvirkis. Þetta er jarðhýsi sem var fyrst byggt líklega öðru hvoru megin við árið 1000 í landi Arnarness.

Farfuglarnir seint á ferð

Miklar norðanáttir undanfarið hafa seinkað komu farfugla til landsins. Þrátt fyrir að þessir vorboðar séu farnir að láta sjá sig eru þeir mun færri en venjulega og enn bólar ekkert á sumum þeirra eins og hrossagauknum.

Samkynhneigðir fái full réttindi

Íslenska þjóðkirkjan verður að veita samkynhneigðum öll sömu réttindi og gagnkynhneigðum. Þetta er skoðun prestanna Þórhalls Heimissonar og Bjarna Karlssonar.

Kosningadúsa

Dúsa uppí kjósendur, segir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar um nýsamþykktar tillögur meirihluta Sjálfstæðismanna um afslátt á fasteigna- og leikskólagjöldum og hækkun á niðurgreiðslum til dagforeldra. Sjálfstæðismenn hafi áður hafnað álíka tillögum frá Samfylkingunni.

Vill ekki flugvöll á Lönguskerjum

Stjórnarformaður Ístaks blæs á hugmyndir um flugvöll á Lönguskerjum. Hann segir miklu skynsamlegra að byggja íbúðahverfi á landfyllingu þar heldur en flugvöll.

Forseti bæjarstjórnar leiðir listann

Elías Jónatansson, iðnaðarverkfræðingur og forseti bæjarstjórnar bolungarvíkur leiðir lista sjálfstæðismanna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 27. maí. Framboðslistinn var samþykktur einróma af fulltrúaráði Sjálfstæðisfélaganna í Bolungarvík á fundi ráðsins á skírdag.

Allir af nöglunum

Í dag eiga allir bifreiðaeigendur að vera búnir að skipta nagladekkjunum út fyrir sumardekkin. Veðrið í höfuðborginni í nótt og í morgun var þó síst til þess fallið að hvetja ökumenn til að fara af nöglum.

Gott skíðafæri um mest allt land

Flest skíðasvæði á landinu er opin í dag. Opið er á skíðasvæði höfuðborgarbúa í Bláfjöllum, í Hlíðarfjalli á Akureyri, í Tungudal á Ísafirði og í Oddskarði fyrir austan svo dæmi séu tekin.

Hetjuleg björgun úr bruna

Fimm manna fjölskyldu - hjónum og þremur ungum börnum - var bjargað úr brennandi húsi á Akureyri í morgun. Eldur kviknaði á miðhæð í þrílyftu húsi en fjölskyldan var á efstu hæð.

Ástæðulaus ótti

Ótti greip um sig meðal Dana í gær þegar opinberað var að Dani á þrítugsaldri hefði greinst með fuglaflensusmit. Í morgun var svo upplýst að maðurinn er ekki smitaður.

Impregilo þarf að svara fyrir meintar mútugreiðslur

Ítalska verktakafyrirtækið Impregilo, sem er aðalverktaki framkvæmdanna við Kárahnjúka, tapaði á fimmtudag áfrýjun fyrir dómstólum í Afríkinu Lesótó vegna meintra mútugreiðslna fyrirtækisins til embættismanna.

Fimm manna fjölskyldu bjargað

Eldur kom upp í þrílyftu húsi á Eyrinni á Akureyri í morgun. Fimm manna fjölskyldu var bjargað af efstu hæð hússins en eldurinn var á miðhæðinni.

Annir hjá björgunarsveitum

Hjón á vélsleða fóru fram af snjóhengju rétt fyrir ofan Grenivík í gær. Hjónin reyndust ekki mikið slösuð en kalla þurfti út björgunarsveit til að aðstoða þau.

Slagsmálahundar og launhálka í Reykjavík

Tveir menn voru handteknir fyrir að ganga í skrokk á þeim þriðja í Bankastræti í nótt og var þeim búinn næturstaður í fangaklefa. Fórnarlambið heimsótti slysadeild en mun ekki hafa verið mikið slasað. 7 árekstrar urðu í Reykjavík í nótt þegar frysti skyndilega um fjögurleytið, en ekki urðu þó mikil slys á fólki. Einnig valt bíll á Reykjanesbraut og annar ók út af á Vesturlandsvegi en meiðsl á fólki voru minniháttar. Þá voru 4 ökumenn teknir fyrir ölvun undir stýri.

Unglingur á rauðu ljósi

Lögreglan í Reykjavík stöðvaði í nótt ökumann fyrir að fara yfir á rauðu ljósi og kom þá á daginn að ökumaður var aðeins sextán ára og hafði tekið bíl foreldra sinna í leyfisleysi. Það verður því nokkur frestun á því að strákurinn fái ökuréttindi og fái að rúnta um á bíl pabba og mömmu á ný.

Sjá næstu 50 fréttir