Innlent

Stóráfallalausir páskar þrátt fyrir hraðakstur

Páskahelgin hefur verið stóráfallalaus og umferðin gengið greiðlega fyrir sig. Umferðin dreifist eitthvað því margir komu heim úr bústöðum og ferðalögum í gær. Einn og einn ökufantur hefur þó látið á sér kræla og stofnað lífi sínu og annarra í stórhættu með ofsaakstri.

Nú rétt fyrir fréttir var ekki annað að heyra en að ökumenn væru rólegir og þolinmóðir að komast heim úr páskafríinu og allt til fyrirmyndar. Engin stórslys hafa orðið um helgina, hvorki á vegunum né annars staðar, en björgunarsveitir sinntu nokkrum útköllum, aðallega á skírdag.

Lögreglan hefur verið við hraðamælingar víða um helgina en sá bíræfnasti er án efa hraðskreiður ökufantur sem lögreglan í Borgarnesi rakst á og veitti eftirför. Þrjóturinn sinnti engu leiðbeiningum lögreglu um að stöðva bílinn heldur fór svo að hann stakk lögreglu af. Lögreglubíllinn fór mest á tæplega hundrað og níutíu kílómetra hraða og því ljóst að sportbíllinn hefur þjösnast áfram á yfir tvöhundruð kílómetra hraða.

Sigurður Helgason, verkefnisstjóri Umferðarstofu, segir að þó bílarnir séu kannski gerðir til að aka á þessum hraða, séu íslenskir vegir víðast hvar illa til þess fallnir. Hann bætir við að mannslíkaminn sé auk þess engan veginn í stakk búinn til að þola álagið af árekstri sem yrði á þessum hraða. Þeirra sem lenda í árekstri á slíkum hraða bíði einfaldlega bráður bani. Því séu ökufantar ekki einungis að stofna eigin lífi í hættu heldur einnig allra sem þeir mæti á veginum.

Maðurinn fannst þó skömmu síðar og var sviptur réttindum á staðnum. Í reglugerð dómsmálaráðuneytisins segir að hraðakstur upp að 170 kílómetra hraða varði 70 þúsunda króna sekt og þriggja mánaða ökuleyfissviptingu. Skalinn nær ekki hærra en 170. Það er því dómara að þyngja dóminn umfram það, einnig með tilliti til þess að maðurinn sinnti ekki bendingum lögreglu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×