Innlent

Ástæðulaus ótti

MYND/Vísir

Ótti greip um sig meðal Dana í gær þegar opinberað var að Dani á þrítugsaldri hefði greinst með fuglaflensusmit. Í morgun var svo upplýst að maðurinn er ekki smitaður.

Í gær var Dani á þrítugsaldri lagður inn á ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn eftir að hafa greinst smitaður af fuglaflensu á sjúkrahúsi í Nyköbing. Eitthvað virðast menn þar þó hafa hlaupið á sig því í morgun upplýsti prófessor Peter Skinhöj hjá Ríkissjúkrahúsinu að einkenni mannsins ættu fátt sammerkt með flensu og því af og frá að maðurinn væri með fuglaflensu. Maðurinn hafði verið að störfum utandyra þar sem mikið var um fugladrit. Hann hafi síðar veikst og í kjölfarið drógu einhverjir þá ályktun að það væri fuglflensa sagði prófessorinn. Ríkissjúkrahúsið mun þó ekki útskrifa manninn fyrr en á morgun af öryggisástæðum.

Enn sem komið er hefur ekkert tilvik fuglaflensu komið upp á Norðurlöndum en samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðisstofnuninnar hafa yfir eitt hundrað manns látist af völdum H5N1 fuglflensuafbrigðisins á síðustu þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×