Innlent

Hátíðin á enda

Hátíðin Aldrei fór ég suður sem haldin var í þriðja sinn á Ísafirði um helgina er á enda. Hátíðin tókst með afburðum vel að mati aðstandenda en talið er að allt að þrjú þúsund ferðamenn hafi verið í bænum þegar mest var.

Alls stigu tuttugu og fjórar hljómsveitir á stokk. Tvísýnt var á tímabili hvort allir hljómsveitameðlimir myndu mæta þar sem flug féll niður til Ísafjarðar á föstudag vegna veðurs og þurfti hluti fimm hljómsveita að taka rútu og tók förin alls tíu klukkustundir. Allt gekk þó vel en meðal hljómsveita sem komu fram voru BenniHemmHemm, Mr. Silla, Borkó, Hairdoctor, Jet Black Joe og Reykjavík.

Hátíðin gekk sem fyrr segir vel og komu engin stórmál upp. Einn maður var þó tekinn með hálft gramm af hassi, en honum var sleppt eftir yfirheyrslur og verður hann líklega sektaður. Stefnt er að því að hátíðin verði haldin aftur á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×