Innlent

Von á frekari bensínhækkunum

Bensínverð hefur hækkað um nærri þrettán krónur á einum mánuði og er bensínverð í hæstu hæðum og hvergi hærra en hér á landi.

Búast má við frekari hækkunum á næstunni hér á landi vegna hækkana á heimsmarkaði.

Heimsmarkaðsverð á olíu hækkar enn og í morgun var fatið komið upp í sjötíu dali og hefur ekki verið hærra í átta mánuði. Ófriðurinn í Írak og óvissan um framleiðslu í Íran vegna kjarnorkuáætlunar klerkastjórnarinnar eru á meðal ástæðna fyrir hækkuninni. Olíumálaráðherra Katar segir ólíklegt að Samtök olíuframleiðsluríkja, OPEC, muni auka framleiðsluna til að mæta eftirspurninni. Bensínverð hér á landi er í hæstu hæðum og býst, Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðareiganda, við frekari hækkunum á næstunni. En bensínverð gefur hækkað um tólf og hálfa krónu síðasta mánuð.

Runólfur segir bensínverð hér á landi það hæsta á byggðu bóli og segir hann það kröfu FÍB að stjórnvöld grípi inn í. Bensín og olía séu háskattavara og því sé svigrúm til aðgerða. Ríkið fær um sjötíu krónur af hverjum seldum lítra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×