Innlent

Tæplega 400 þúsund kr. í mánaðartekjur af fíkniefnasölu á Litla-Hrauni

Dæmi eru um að fangar hafi hátt í fjögur hundruð þúsund krónur í tekjur á mánuði fyrir fíkniefnasölu innan veggja fangelsisins á Litla-Hrauni. Þetta kemur fram í grein í nýjasta tölublaði Hraunbúans, blaði sem fangar á Litla-Hrauni gefa út. Greinarhöfundur ræðir þar við nokkra fanga um lífið á Hrauninu, og þá aðallega hvernig upplifun ungra fanga er af fangelsinu.

Að sögn viðmælenda er marga smákónga að finna á Litla-Hrauni sem taki þá ungu undir sinn verndarvæng, og hjálpi þeim til að mynda að komast hjá því að borga uppgerðar skuldir. Í staðinn þurfi þeir að koma fíkniefnum inn í fangelsið, bera þau á milli staða og selja þau.

Einn fangi sem greinarhöfundur ræddi við segir að miklir tekjumöguleikar séu fólgnir í því að selja fíkniefni á Litla-Hrauni. Sumir sölumenn hafi haft allt upp í eina og hálfa milljón króna í tekjur á fjórum mánuðum, sem gera 375 þúsund krónur á mánuði. Þá séu dæmi um að fangar neyti fíkniefna fyrir tæplega fjörutíu þúsund krónur, bara yfir eina helgi.

Í samtali við NFS í morgun sagðist Valtýr Sigurðsson fangelsismálastjóri hafa lesið umrædda grein en ekki kynnt sér málið til hlítar, og vildi því ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Ekki náðist í forstöðumann fangelsins á Litla-Hrauni í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×