Innlent

Fimm manna fjölskyldu bjargað

Eldur kom upp í þrílyftu húsi á Eyrinni á Akureyri í morgun. Fimm manna fjölskyldu var bjargað af efstu hæð hússins en eldurinn var á miðhæðinni.

Tilkynnt var um eldinn um klukkan níu í morgun og þegar að var komið lagði mikinn reyk frá húsinu sem er við Fjólugötu 18 á Eyrinni á Akureyri. Að sögn lögreglu var eldurinn á miðhæðinni í þrílyftu íbúðarhúsi. Íbúarnir á miðhæðinni tilkynntu um eldinn og virðist hann hafa verið í eldhúsi hússins.

Slökkviliðið var skjótt á staðinn og tókst að koma fjölskyldu á efstu hæð til bjargar. Þar býr fimm manna fjölskylda, hjón með þrjú börn. Var farið með þau öll á sjúkrahús en ekki er talið að þau hafi orðið fyrir skaða þó hugsanlegt sé að fólkið hafi orðið fyrir minni háttar reykeitrun. Að sögn lögreglu gékk slökkvistarf greiðlega og var því lokið á um klukkutíma. Miklar skemmdir urðu í húsinu af völdum elds og reyks. Ekki liggja fyrir upplýsignar um eldsupptök.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×