Innlent

Björgunarsveitarmenn hætt komnir

Vanir björgunarmenn voru hætt komnir þegar þeir leituðu tveggja manna á Langjökli á föstudaginn langa. Framkvæmdastjóri Landsbjargar segir hjálparsveitir iðulega fá útköll sem rekja má til andvaraleysis fólks, sem leggur illa búið í ferðir um hálendi Íslands.

Þrátt fyrir að jeppaeign Íslendinga hafi aldrei verið meiri, þeir aldrei betur búnir og gps tæki algeng breytir það því ekki að neyðarköll til hjálparsveita hafa aldrei verið fleiri. Þau voru 1400 á síðasta ári.

Um páskana hafa sveitirnar sinnt 14 hjálparbeiðnum og aðstoðað fólk í vandræðum hér á þar. Þetta hafa verið vélsleðaslys á hálendinu, bílar sem sátu fastir og kannski það alvarlegasta; útkallið á Langjökli þar sem leitað var að tveimur mönnum frá skírdegi og fram á föstudaginn langa.

Framkvæmdastjóri Landsbjargar, Jón Gunnarsson, segir það gerast ítrekað að fólk leggi illa búið á ferðir um hálendið. Hann vísar til aðstæðna björgunarmanna þegar mannanna var leitað við Langjökul þar sem aðstæður voru afar erfiðar.

Landsbjörg tekur ekki saman kostnað við slíkar björgunaraðgerðir.

Um 1400 Íslendingar eru virkir sjálfboðaliðar hjá samtökunum. Það er almenningur sem stendur undir kostnaði hjálparsveitanna í gengnum fjáraflanir Landsbjargar og heldur úti dýrum og viðhaldsfrekum tækjabúnaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×