Fótbolti

Seldur ó­dýrt eftir rifrildi við van Persie

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Quinten Timber og Robin van Persie hafa ekki náð vel saman.
Quinten Timber og Robin van Persie hafa ekki náð vel saman. Marcel van Dorst/EYE4images/NurPhoto via Getty Images

Quinten Timber hefur verið seldur frá hollenska félaginu Feyenoord til franska félagsins Marseille, eftir að hafa lent í opinberum erjum við þjálfarann Robin van Persie.

Timber, sem á tvíburabróður í vörninni hjá Arsenal að nafni Jurrien, var fyrirliði Feyenoord á síðasta tímabili en hefur alls ekki átt samleið með van Persie, sem tók við störfum fyrir tímabilið.

Þjálfarinn svipti hann fyrirliðabandinu og hefur sett Timber út í kuldann. Eftir síðasta deildarleik var van Persie spurður hvers vegna Timber væri ekki í hóp og hann svaraði á þá leið að vinnusemi hans á æfingum og viðhorf til hópsins væri ekki nógu gott.

„Mér finnst leiðinlegt að þetta þurfi að vera svona. Þetta hefur gerst nokkrum sinnum, að þjálfarinn verndi ekki leikmanninn. Að þessu sinni lendi ég því, enn og aftur. Ég hef mín mörk“ svaraði Timber þegar hann var spurður út í ummælin.

Hollenskir miðlar hafa svo í vikunni greint frá enn meiri erjum þeirra á milli, sem enduðu með hávaðarifrildi í klefanum.

Timber hefur nú verið seldur til Marseille á hálfgerðu gjafaverði, eða um 4.5 milljónir evra, þegar markaðsvirði hans á Transfermarkt er 25 milljónir evra.

Feyenoord er í öðru sæti hollensku úrvalsdeildarinnar, en heilum sextán stigum á eftir toppliði PSV. 

Marseille er í þriðja sæti frönsku úrvalsdeildarinnar, sex og sjö stigum frá PSG og Lens. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×