Erlent

Bein út­sending: Þor­gerður á­varpar mannréttindaráðið vegna Íran

Samúel Karl Ólason skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segist hafa miklar áhyggjur „af því skelfilega ástandi sem ríkir í Íran og fordæmi harðlega dráp stjórnvalda á mótmælendum.“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segist hafa miklar áhyggjur „af því skelfilega ástandi sem ríkir í Íran og fordæmi harðlega dráp stjórnvalda á mótmælendum.“ Vísir/Vilhelm

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, ávarpar í dag mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna á sérstökum aukafundi. Hann er haldinn að frumkvæði Íslendinga og verður fjallað um alvarlega stöðu mannréttinda í Íran og mótmælin þar í landi undanfarnar vikur.

Eins og þekkt er stóðu umfangsmikil mótmæli gegn klerkastjórninni í Íran yfir fyrir og eftir áramót. Í fyrstu gerðu yfirvöld lítið til að reyna að stöðva mótmælin en það breyttist fljótt og var mótmælendum mætt af mikilli hörku.

Talið er að þúsundir hafi látið lífið en erfiðlega hefur gengið að afla upplýsinga frá Íran þar sem stjórnvöld hafa takmarkað aðgang almennings að neti og símasambandi í landinu.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu um aukafundinn sem birt var á dögunum segir að Ísland hafi verið í forystu hvað varðar málefni Írans í mannréttindaráðinu síðustu ár. Frá árinu 2021 hefur Ísland leitt vinnu við ályktun sem tryggir endurnýjun umboðs sérstaks skýrslugjafa um stöðu mannréttinda í Íran. Í kjarnahópi ríkja um ályktunina sitja, auk Íslands, Þýskaland, Bretland, Moldóva og Norður-Makedónía.

Fylgjast má með fundinum í beinni útsendingu hér að neðan og hér á vef Sameinuðu þjóðanna. Áætlað er að Þorgerður taki til máls um 13:45 til 14:00 að íslenskum tíma.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hótaði loftárásum gegn klerkastjórninni en dró í land þegar hann sagðist hafa fengið vilyrði fyrir því að klerkastjórnin ætlaði ekki að taka handtekna mótmælendur af lífi. Hann sendi þó flugmóðurskip á svæðið og hefur haldið möguleikanum á árásum opnum.

Í dag bárust svo fregnir af því að æðsti saksóknari Íran hafi lýst því yfir að ummæli Trumps um að búið væri að hætta við aftökur átta hundruð mótmælenda væru röng.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×