Innlent

Guð­mundur Ingi segir af sér

Agnar Már Másson skrifar
Guðmundur Ingi Kristinsson fór í veikindaleyfi fyrir mánuði. Hann tók við sem ráðherra í mars 2025.
Guðmundur Ingi Kristinsson fór í veikindaleyfi fyrir mánuði. Hann tók við sem ráðherra í mars 2025. Vísir/Ívar

Guðmundur Ingi Kristinsson hefur tilkynnt að hann muni segja af sér sem mennta- og barnamálaráðherra vegna veikinda. Hann mun halda áfram sem þingmaður Flokks fólksins. 

Guðmundur Ingi greindi frá afsögn sinni í færslu á Facebook en í desember fór hann í veikindaleyfi til að gangast undir hjartaaðgerð í lok þess mánaðar. 

Uppfært: Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur tilkynnt að hún muni sjálf taka við sem barnamálaráðherra og að Ragnar Þór Ingólfsson þingmaður taki við af Ingu sem félags- og húsnæðismálaráðherra.

Hann skrifar í færslunni að bataferli sé fram undan og hann kveðst hlakka til að snúa aftur til starfa á Alþingi sem þingmaður Flokks fólksins, þegar heilsa leyfir.

„Það hefur verið heiður að gegna embætti mennta- og barnamálaráðherra og starfa í þágu málaflokks sem er mér afar kær. Þá vil ég koma á framfæri þakklæti til Flokks fólksins, samstarfsfólks míns í ráðuneytinu og samráðherra. Ég styð ríkisstjórnina heilshugar í þeim góðu verkefnum sem fram undan eru á næstu misserum,“ skrifar fráfarandi ráðherrann.

Hann kveðst ekki munu tjá sig frekar um málið að svo stöddu en hyggst einbeita sér að því að ná bata. 

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði í vikunni að hún myndi tilkynna hrókeringu í ráðherraliði flokksins á morgun, föstudag, en hún hefur gegnt embætti mennta- og barnamálaráðherra í fjarveru Guðmundar.

Guðmundur Ingi tók við sem ráðherra í mars eftir að Ásthildur Lóa Þórsdóttir sagði af sér í kjölfar fréttaflutnings um samband og barnalán hennar með 16 ára manni þegar hún var 22 ára.

Starfsmenn og þingmenn flokksins hafa ekkert viljað tjá sig um afsögn ráðherrans. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×