Fótbolti

FH-ingurinn mættur til Hoffenheim

Sindri Sverrisson skrifar
Cole Campbell lék fyrir U17-landslið Íslands en ákvað svo að spila frekar fyrir Bandaríkin og er hér í bandaríska landsliðsbúningnum.
Cole Campbell lék fyrir U17-landslið Íslands en ákvað svo að spila frekar fyrir Bandaríkin og er hér í bandaríska landsliðsbúningnum. Getty/Srdjan Stevanovic

Hinn 19 ára gamli Cole Campbell, sonur landsliðskonunnar fyrrverandi Rakelar Ögmundsdóttur, hefur verið lánaður frá Dortmund til Hoffenheim og verður því áfram í efstu deild þýska fótboltans.

Hoffenheim fær Cole að láni út yfirstandandi leiktíð en á möguleika á að kaupa hann frá Dortmund í sumar. Þessi sóknarsinnaði leikmaður hefur spilað fimm deildarleiki fyrir Dortmund í vetur og er með samning við félagið sem gilda átti til sumarsins 2028.

„Cole er mjög hæfileikaríkur kantmaður sem hefur alla burði til að þróast vel og við höfum fylgst náið með honum í nokkurn tíma,“ sagði Andreas Schicker, yfirmaður íþróttamála hjá Hoffenheim, og lýsir Cole jafnframt sem afar hröðum leikmanni sem geti tekið menn á.

Cole hefur verið hjá Dortmund frá árinu 2022 og skrifaði undir fyrsta atvinnumannssamning sinn í júlí 2024.

Hann á bandarískan föður og bjó lengst af í Bandaríkjunum en heimsótti Ísland á sumrin og spilaði fyrir yngri flokka FH. Hann flutti svo til landsins og náði að spila staka leiki með bæði FH og Breiðabliki í Bestu deildinni áður en Dortmund fékk hann.

Cole er bæði með bandarískan og íslenskan ríkisborgararétt og hefur spilað fyrir yngri landslið beggja þjóða. Hann lék alls sjö leiki fyrir U17-landslið Íslands en valdi svo Bandaríkin fram yfir Ísland árið 2024 og hefur spilað fyrir U20- og U23-liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×