Fótbolti

Á­fall fyrir Heimi Hall­gríms og drauminn um að komast á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson og Josh Cullen sjást hér saman á blaðamannafundi fyrir leik gegn Armeníu í undankeppni HM.
Heimir Hallgrímsson og Josh Cullen sjást hér saman á blaðamannafundi fyrir leik gegn Armeníu í undankeppni HM. Getty/Stephen McCarthy

Írska fótboltalandsliðið hefur orðið fyrir verulegu áfalli þrátt fyrir að það séu rúmir tveir mánuðir í næsta leik.

Ástæðan eru alvarleg meiðsli eins lykilmanns liðsins. Burnley staðfesti að miðjumaðurinn Josh Cullen hefði hlotið alvarleg hnémeiðsli en hann er einnig fyrirliði enska úrvalsdeildarliðsins.

Cullen meiddist í 0-0 jafntefli gegn Everton á Turf Moor á laugardag.

Burnley sagði að hann yrði frá keppni í „langan tíma“ og ljóst er að hann missir af undanúrslitaleik umspilsins fyrir HM gegn Tékklandi í Prag þann 26. mars, ásamt úrslitaleiknum í Dublin gegn Norður-Makedóníu eða Danmörku, komist Írland áfram.

Nú hefur verið staðfest að hann sleit krossband þannig að hann missir ekki aðeins af umspilsleikjunum heldur einnig af HM, komist liðið þangað.

„Það segir sig sjálft að ég er niðurbrotinn yfir því að hafa slitið krossband á laugardaginn gegn Everton. Bataferlið er hafið og ég mun gera allt sem ég get til að komast aftur á völlinn eins fljótt og auðið er, fyrir félagslið og landslið,“ skrifaði Cullen á samfélagsmiðla sína.

Langvarandi fjarvera hins 29 ára gamla leikmanns er mikið reiðarslag fyrir áætlanir Heimis Hallgrímssonar landsliðsþjálfara Írlands en Cullen hefur verið fastamaður undir stjórn íslenska þjálfarans og forvera hans, Stephen Kenny, og hefur leikið 47 A-landsleiki til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×