Innlent

Þórunn biðst af­sökunar: „Bara mann­leg eins og annað fólk“

Agnar Már Másson skrifar
„Svona getur gerst þegar hitnar í kolunum og forseti Alþingis er bara mannleg eins og annað fólk,“ skrifar Þórunn Sveinbjarnardóttir.
„Svona getur gerst þegar hitnar í kolunum og forseti Alþingis er bara mannleg eins og annað fólk,“ skrifar Þórunn Sveinbjarnardóttir. Vísir/Vilhelm

Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, biðst afsökunar á ummælum sínum á Alþingi í gær þar sem hún kallaði stjórnarandstöðuna „andskotans pakk“. Hún kveðst vera mannleg eins og annað fólk.

„Það var hvort tveggja óheppilegt og miður að þessi orð skyldu falla á leið minni út úr þingsalnum í gær og ástæða til að biðjast afsökunar á þeim,“ skrifar þingforsetinn í skriflegri yfirlýsingu til Vísis. Hún vildi ekki veita viðtal.

Þórunn lét ófögur orð falla eftir að hún gerði hlé á þingfundi í gær. „Ég er komin með nóg. „Djöfulsins, helvítis, andskotans pakk,“ heyrðist Þórunn segja eftir að hún gerði tíu mínútna hlé á þingfundi og kallaði til fundar með þingflokksformönnum.

Sagði hún þetta eftir að þingmenn stjórnarandstöðunnar höfðu stigið í stríðum straumi í ræðustól til þess að gagnrýna Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra undir liðnum fundarstjórn forseta. 

Hitnað í kolunum

„Svona getur gerst þegar hitnar í kolunum og forseti Alþingis er bara mannleg eins og annað fólk,“ skrifar Þórunn enn fremur í yfirlýsingunni.

Vissulega hefur hitnað í kolunum á þinginu í vikunni. Allt ætlaði um koll að keyra á Alþingi á fimmtudag þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar lýstu óánægju sinni með að Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, hefði verið tekinn af lista yfir ráðherra sem sitja áttu fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnartíma. Þeir ætluðu einmitt að spyrja hann út í embættisfærslur hans í máli skólameistara Borgarholtsskóla. Hann reyndist vera veikur. 

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra spurði þá forseta Alþingis hvort ekki væri hægt að „stoppa þetta.“

Ekki fyrstu ummælin sem vekja hneykslan

Þetta er ekki í fyrsta sinn á stjórnmálaferli Þórunnar sem hún finnur sig knúna til að biðjast afsökunar á ófögru orðbragði. 

Árið 2010 bað hún fréttamann RÚV um að „segja frænda þínum að hoppa upp í rassgatið á sér“ án þess að fatta að hún væri enn í beinni útsendingu. Fréttamaðurinn, Ægir Þór Eysteinsson, sem nú er upplýsingafulltrúi Utanríkisráðuneytisins, útskýrði á sínum tíma að þetta hafi mjög greinilega verið grín af hálfu Þórunnar en frændi fréttamannsins hafði reynt að trufla viðtalið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×