Enski boltinn

Hislop með krabba­mein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaka Hislop í einum af mörgum leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni en þarna stóð hann í marki Portsmouth á móti Charlton Athletic.
Shaka Hislop í einum af mörgum leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni en þarna stóð hann í marki Portsmouth á móti Charlton Athletic. Getty/Richard Sellers

Shaka Hislop, fyrrverandi markvörður Newcastle United og sérfræðingur hjá ESPN, sagði frá því á fimmtudag að hann væri með krabbamein í blöðruhálskirtli.

Hislop, sem er 56 ára og lék einnig í ensku úrvalsdeildinni með West Ham United og Portsmouth, sagðist hafa verið greindur með „nokkuð ágengt“ form krabbameinsins fyrir um átján mánuðum og að það hefði nú dreift sér í mjaðmagrindarbeinið.

Hann greindi frá veikindum sínum í myndbandi á samfélagsmiðlum en ESPN segir frá. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.

„Fyrir ári síðan, nánast upp á dag, nánar tiltekið 6. desember, fór ég í róttækt brottnám á blöðruhálskirtli og hélt að þar með væri málið búið,“ sagði hann. „En svo, sex mánuðum síðar, var PSA-gildið [blöðruhálskirtilssértækt mótefnavakagildi] mitt aftur farið að hækka og önnur skönnun sýndi að krabbameinið hafði dreift sér í mjaðmagrindarbeinið.“

„Ég byrjaði á lyfjum fljótlega eftir það og lauk í morgun sjö og hálfrar viku geislameðferð. Gangan heldur áfram,“ sagði Hislop.

Hislop var í liði Newcastle sem var hársbreidd frá því að vinna titilinn árið 1996 en tapaði að lokum fyrir Manchester United. Hann lék tvö tímabil með West Ham, með stoppi hjá Portsmouth þess á milli.

Hann lauk ferli sínum hjá FC Dallas.

Hislop lék með landsliði Trínidad og Tóbagó þar á meðal í 2-0 sigri á Íslandi í febrúar 2006 sem var fyrsti leikur íslenska landsliðsins undir stjórn Eyjólfs Sverrissonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×