Innlent

Ó­kyrrð í lægri flug­hæðum raskar innan­lands­fluginu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Tómas Dagur Helgason, flugrekstrarstjóri Norlandair.
Tómas Dagur Helgason, flugrekstrarstjóri Norlandair. Lýður Valberg Sveinsson

Aflýsa þurfti fyrsta áætlunarflugi í sögu Norlandair til Vestmannaeyja í dag vegna hvassviðris. Allt innanlandsflug féll niður í gær vegna ókyrrðar í lofti og í dag hefur aðeins tekist að fljúga frá Reykjavík til Akureyrar og Bíldudals. Rétt fyrir fréttir stóðu þó vonir til að Egilsstaðir myndu einnig opnast í kvöld.

Í fréttum Sýnar mátti sjá níu sæta King Air-flugvél Norlandair sem átti að fara fyrsta flugið til Eyja í morgun. Flugmennirnir Kristinn Elvar og Daði Freyr Gunnarssynir áttu að fara fyrstu ferðina á grundvelli nýs ríkissamnings um niðurgreitt flug yfir háveturinn.

„Það blæs einhverja 50-60 hnúta þar núna þannig að það verður eitthvað að bíða með það,“ sagði flugstjórinn Kristinn Elvar frammí flugstjórnarklefa.

Kristinn Elvar Gunnarsson, flugstjóri hjá NorlandairLýður Valberg Sveinsson

Þetta átti að verða sögulegur dagur fyrir Norlandair, fyrsta áætlunarflugið á vegum félagsins til Vestmannaeyja. En flugvélin komst hvergi.

„Það er rétt. Og það er ekki hægt að segja að við höfum fengið fljúgandi start í orðsins fyllstu merkingu á Vestmannaeyjar. Það er svolítið hvasst úti í Eyjum og stefnir í að verði í allan dag. Þannig að ég er ekki bjartsýnn á að okkur takist að fara fyrstu ferðina í dag,“ sagði Tómas Dagur Helgason, flugrekstrarstjóri Norlandair.

Reyndar var öllu innanlandsflugi aflýst í gær sem þýddi að 900 manns komust ekki leiðar sinnar með Icelandair, sem einnig neyddist til að fresta fyrstu ferðum í morgun.

„Þær fóru ekki í morgun. En við náðum að koma Akureyri út núna áðan. Og svo er þetta spurning um Egilsstaði. Það er búið að aflýsa á Höfn og Ísafjörð í dag,“ sagði Sara Líf Snorradóttir, þjónustustjóri Icelandair á Reykjavíkurflugvelli, í viðtali í hádeginu.

Sara Líf Snorradóttir, þjónustustjóri Icelandair á Reykjavíkurflugvelli.Lýður Valberg Sveinsson

Ástæðan er veðurviðvörun, svokallað sigmet.

„Veðurviðvörun sem er búin að liggja yfir síðan í gærmorgun,“ segir Kristinn flugstjóri.

„Í þetta skipti er verið að vara við ókyrrð frá jörð og upp í einhver fimmþúsund fet, eða eitthvað slíkt, þar sem er mikil ókyrrð. Og það er ekki flogið í því og allra síst í svona fjalllendi eins og við erum að fljúga í,“ segir Tómas Dagur flugrekstrarstjóri.

Um hádegisbil skánaði veðrið á Vestfjörðum og var grænt ljós gefið á Bíldudalsflug.

„Við erum að fara á Bíldudal núna. Svo á Gjögur að vera á eftir. En það er svolítið hvasst þar og hálka á braut,“ sagði Tómas Dagur en svo fór að flugi á Gjögur var aflýst.

Bíldudalsvélin í flugtaki á Reykjavíkurflugvelli í dag.Lýður Valberg Sveinsson

Hjá Icelandair var verið að gera klárt fyrir næstu vél til Akureyrar en búið að fresta Egilsstaðaflugi fram á kvöld.

En verða farþegar argir?

„Nei, fólk skilur þetta. Það er öllu vant og tekur þessu bara með ró,“ sagði Sara Líf hjá Icelandair.

Bíldudalsvélin var hins vegar ræst.

„Við ætlum að láta reyna á þetta. Vindur er nánast beint á braut á Bíldudal og hærra skýjafar. Þannig að þetta er allt í lagi.“

-Heldurðu að það verði hristingur hjá farþegunum?

„Það gæti verið örlítið, En við reynum að halda því alveg í lágmarki,“ segir flugstjórinn hjá Norlandair, Kristinn Elvar Gunnarsson, í frétt Sýnar sem sjá má hér:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×