Innlent

Símon vildi að Albert fengi tvö og hálft ár

Árni Sæberg skrifar
Símon Sigvaldason er dómari við Landsrétt.
Símon Sigvaldason er dómari við Landsrétt. Vísir

Landsréttardómarinn Símon Sigvaldason, skilaði sératkvæði í máli Alberts Guðmundssonar og taldi að sakfella hefði átt Albert og dæma í tveggja ára og sex mánaða fangelsi. Hann hefur verið kallaður Símon grimmi vegna hás sakfellingarhlutfalls hans í gegnum tíðina.

Í atkvæðinu segist hann telja að leggja hefði átt framburð brotaþola til grundvallar niðurstöðu, en hann hafi að hans mati verið trúverðugri en framburður Alberts um meginatriði málsins og fengið mikinn stuðning af rannsóknargögnum málsins. 

Telur lykilvitni vilhallt

Meðal þess sem Símon tiltekur í atkvæði sínu er að hann telji eitt lykilvitna í málinu hafa verið ótrúverðugt og vilhallt en í málinu kom fram að vitnið væri æskuvinur Alberts og hefði aldrei hitt brotaþola fyrir umrætt kvöld.

Þá telji hann að aðgerðir brotaþola og líðan í kjölfar atvika málsins varpi skýru ljósi á að eitthvað mun alvarlegra hafi átt sér stað umrætt sinn heldur en Albert hafi viljað viðurkenna.

Að teknu tilliti til meginreglna sakamálaréttarfars telji hann að fram hafi verið komin nægjanleg sönnun um sekt Alberts til að telja hana sannaða.

„Ég tel því að sakfella beri ákærða fyrir nauðgun samkvæmt ákæru og dæma hann í fangelsi í tvö ár og sex mánuði.“

Ragnheiður Bragadóttir, dómsformaður í málinu, samdi dóminn og Ásmundur Helgason myndaði meirihluta með henni um niðurstöðu málsins um sýknu Alberts. Ásmundur skilaði þó sératkvæði sem varðaði forsendur héraðsdóms fyrir því að skilyrði refsiábyrgðar Alberts væru ósönnuð. Hann hefði ekki viljað fallast á þær forsendur að öllu leyti, líkt og gert er í dómi Landsréttar.

Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrri útgáfu sagði að Ragnheiður Bragadóttir lagaprófessor, sem hefur um árabil stundað rannsóknir á löggjöf og dómaframkvæmd í kynferðisbrotamálum, hafi verið dómsformaður í málinu. Hið rétta er að hún á alnöfnu sem er Landsréttardómari og var dómsformaður í málinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×