Spænski risinn grátt leikinn og Estevao vann upp­gjör ungstirnanna

Sindri Sverrisson skrifar
Estevao brosti út að eyrum eftir markið frábæra sem hann skoraði gegn Barcelona í kvöld.
Estevao brosti út að eyrum eftir markið frábæra sem hann skoraði gegn Barcelona í kvöld. Getty/Jacques Feeney

Chelsea vann frábæran 3-0 sigur gegn tíu leikmönnum Barcelona á Brúnni í kvöld, í Meistaradeild Evrópu í fótbolta, þrátt fyrir að fyrstu tvö mörk heimamanna væru, réttilega, dæmd af.

Það auðveldaði Chelsea verkið að Ronald Araújo, sem var fyrirliði Börsunga í kvöld, fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt undir lok fyrri hálfleiks þegar hann kastaði sér í tæklingu gegn Marc Cucurella úti við hliðarlínu.

Þá var staðan þegar orðin 1-0 eftir sjálfsmark Jules Koundé en tvö mörk höfðu þá þegar verið dæmd af, annað vegna hendi og hitt vegna rangstöðu.

Í seinni hálfleiknum skoraði hinn 18 ára Estevao magnað mark, með spretti í gegnum vörn Börsunga, og fóru myndavélarnar þá einnig á ungstirnið Lamine Yamal enda Estevao verið nefndur sem einna sennilegasti keppinautur Yamals um sviðsljósið á komandi árum.

Liam Delap skoraði svo þriðja mark Chelsea á 73. mínútu eftir sendingu frá Enzo Fernández.

Chelsea er nú í 4. sæti Meistaradeildarinnar með 10 stig, tveimur á eftir Bayern, Arsenal og Inter sem spila öll á morgun, þar af Bayern og Arsenal innbyrðis. Börsungar eru með sjö stig í 15. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira