Fótbolti

Endur­koma kom Bayern aftur á sigurbraut

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Michael Olise skoraði tvö fyrir Bayern.
Michael Olise skoraði tvö fyrir Bayern. Vísir/Getty

Eftir jafntefli í síðustu umferð vann Bayern München öruggan 5-2 sigur gegn Freiburg í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Bæjarar hafa ekki tapað einum einasta leik á tímabilinu og fyrir síðustu umferð hafði liðið unnið alla leiki sína frá því á HM félagsliða í sumar.

Bayern þurfti hins vegar að sætta sig við 2-2 jafntefli gegn Union Berlin í síðustu umferð og framan af leik leit út fyrir fleiri töpuð stig hjá liðinu gegn Freiburg í dag.

Gestirnir í Freiburg komust yfir á 12. mínútu áður en liðið tvöfaldaði forystuna fimm mínútum síðar.

Heimamenn í Bayern voru hins vegar ekki á því að tapa fleiri stigum. Lennart Karl minnkaði muninn fyrir Bayern á 22. mínútu áður en Michael Olise jafnaði metin fyrir liðið í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Dayot Upamecano kom Bayern svo yfir snemma seinni hálfleiks og þeir Harry Kane og Nicolas Jackson bættu sínu markinu hvor við á 60. og 78. mínútu.

Það var svo Olise sem innsiglaði sigurinn með öðru marki sínu og sjötta marki Bayern undir lok leiks.

Niðurstaðan því 6-2 sigur Bayern sem trónir á toppi þýsku deildarinnar með 31 stig eftir 11 leiki, átta stigum meira en Bayer Leverkusen sem situr í öðru sæti.

Freiburg situr hins vegar í tíunda sæti með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×