Erlent

Segja friðarverðlaunahafann á flótta undan „rétt­vísinni“ sæki hann verð­launin

Kjartan Kjartansson skrifar
María Corina Machado, leiðtogi venesúelönsku stjórnarandstöðunnar. ávarpar ráðstefnu í gegnum fjarfundarbúnað. Hún hefur verið í felum frá því eftir forsetakosningarnar í Venesúela í fyrra.
María Corina Machado, leiðtogi venesúelönsku stjórnarandstöðunnar. ávarpar ráðstefnu í gegnum fjarfundarbúnað. Hún hefur verið í felum frá því eftir forsetakosningarnar í Venesúela í fyrra. Vísir/EPA

Stjórnvöld í Venesúela segja að María Corina Machado, friðarverðlaunahafi Nóbels í ár, verði skilgreind sem á flótta undan réttvísinni, ferðist hún til Noregs til að taka við verðlaununum. Þau saka hana um hryðjuverkstarfsemi og hatursáróður.

Nóbelsnefndin tilkynnti að Machado hlyti friðarverðlaunin í ár vegna friðsamlegrar baráttu hennar til þess að koma aftur á lýðræði í Venesúela. Landið hefur verið undir járnhæl Nicolás Maduro forseta undanfarin ár.

Machado hefur verið í felum til að komast hjá því að vera handtekin frá því að forsetakosningar fóru fram í Venesúela í fyrra. Stjórnarandstaðan sakaði ríkisstjórn Maduro um að hafa rangt við en fyrir vikið var Machado sökuð um samsæri gegn stjórnvöldum.

Fjöldi ríkja hefur neitað að viðurkenna kosningaúrslitin þar sem kosningarnar hafi hvorki verið frjálsar né farið fram á sanngjarnan hátt. Machado var meðal annars bannað að bjóða sig fram.

Nú segir Tarik William Saab, ríkissaksóknari Venesúela, að Machado sé sökuð um samsæri, hvatningu til haturs og hryðjuverk. Þá sé hún til rannsóknar vegna stuðningsyfirlýsinga hennar við hernaðaraðgerðir Bandaríkjastjórnar gegn meintum fíkniefnasmyglbátum við Suður-Ameríku, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Fari Machado til Noregs til þess að veita friðarverðlaununum viðtöku verði hún talin á flótta undan réttvísinni, að því marki sem hún er til staðar í Venesúela.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×