Fótbolti

Krón­prinsinn ætlar að mæta á bikar­úr­slita­leik Örnu og Sæ­dísar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arna Eiríksdóttir fagnar marki Valerenga á móti Roma í Meistaradeildinni.
Arna Eiríksdóttir fagnar marki Valerenga á móti Roma í Meistaradeildinni. Getty/Domenico Cippitelli

Hakon krónprins verður í stúkunni þegar Vålerenga og Rosenborg spila bikarúrslitaleik kvenna í fótbolta á sunnudaginn.

Þarna eru tvö Íslendingalið að mætast þó að Selma Sól Magnúsdóttir hafi ekkert spilað með Rosenborg í ár vegna meiðsla.

Í liði Vålerenga eru aftur á móti tvær íslenskar landsliðskonur, þær Sædís Rún Heiðarsdóttir og Arna Eiríksdóttir.

Arna er meira að segja að fara spila sinn annan bikarúrslitaleik á árinu því hún fór einnig í bikarúrslit með FH í sumar áður en hún færði sig yfir til Noregs.

Hákon krónprins er greinilega mikill fótboltaáhugamaður því hann var í Mílanó á dögunum og sá karlalandslið Noregs tryggja sér sæti á HM með 4-1 sigri á Ítalíu á San Siro.

„Norska knattspyrnusambandið er stolt og þakklátt fyrir að geta boðið Hakon krónprins hjartanlega velkominn á bikarúrslitaleikinn milli tveggja af bestu liðum efstu deildarinnar,“ segir Karl-Petter Löken, framkvæmdastjóri norska knattspyrnusambandsins, í yfirlýsingu.

Vålerenga er ríkjandi bikarmeistari og mætir Rosenborg þriðja árið í röð í bikarúrslitaleiknum. Árið 2023 vann RBK 1-0 en VIF náði fram hefndum með sömu tölum í fyrra.

Úrslitaleikurinn á sunnudaginn á Ullevaal-leikvanginum hefst klukkan 16.00 að norskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×