Upp­gjörið: Aserbaísjan - Ís­land 0-2 | Öruggur sigur og úr­slita­leikur fram­undan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir okkar fögnuðu vel eftir að Sverrir Ingi Ingason kom Íslandi í 2-0 gegn Aserum.
Strákarnir okkar fögnuðu vel eftir að Sverrir Ingi Ingason kom Íslandi í 2-0 gegn Aserum. Getty/Aziz Karimov

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Úkraínu í hreinum úrslitaleik um sæti í umspili til að komast á heimsmeistaramótinu á næsta ári. Þetta var ljóst eftir öruggan 0-2 sigur Íslands á Aserbaísjan í Bakú.

Albert Guðmundsson og Sverrir Ingi Ingason skoruðu mörk Íslands í fyrri hálfleik.

Seinna í kvöld mætir Úkraína Frakklandi og niðurstaðan í þeim leik stjórnar því hvaða úrslit Ísland þarf í úrslitaleiknum í Varsjá á sunnudaginn. Ef Frakkar vinna Úkraínumenn dugir Íslendingum jafntefli, annars þarf íslenskan sigur til að komast í umspilið.

Ísland vann fyrri leikinn gegn Aserbaísjan fyrir tveimur mánuðum, 5-0, og yfirburðir íslenska liðsins voru svipaðir í leiknum í kvöld.

Íslenska liðið var alltaf við stýrið í leiknum í kvöld, var miklu meira með boltann og lét hann ganga vel og bjó til hættuleg færi inn á milli. Þetta var ekki sama markaveislan og í Laugardalnum en frammistaðan angaði af öryggi og yfirvegun og sigurinn var aldrei í hættu.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn í byrjunarliðið fyrir leikinn í kvöld og lék sinn hundraðasta landsleik. Sá fyrsti kom einmitt gegn Aserbaísjan fyrir sautján árum síðar. Jóhann Berg var á hægri kantinum og hetjan frá jafnteflinu við Frakkland, Kristian Nökkvi Hlynsson, var á þeim vinstri. Andri Lucas Guðjohnsen sneri aftur eftir leikbann og var frammi með Alberti.

Leiknum í Bakú svipaði mjög til leiksins gegn Aserbaísjan á Laugardalsvelli í september. Íslendingar voru meira með boltann gegn varnarsinnuðum Aserum sem hættu sér sjaldan fram völlinn. Heimamenn áttu nokkrar sóknir en aðgerðir þeirra voru tilviljanakenndar og ekki sérstaklega hættulegar.

Framan af vantaði herslumuninn hjá Íslendingum á síðasta þriðjungnum en takturinn í spilinu var fínn og boltinn gekk vel. Aldrei örlaði á óþolinmæði eða óþreyju hjá íslenska liðinu sem sýnir kannski framfarirnar sem það hefur tekið með boltann undanfarna mánuði.

Á 20. mínútu kom hins vegar úrslitasendingin sem lét standa á sér í byrjun leiks. Ísak Bergmann Jóhannesson fékk boltann fyrir utan vítateiginn vinstra megin og þræddi hann inn fyrir vörn Aserbaísjan á Albert. Hann tók við boltanum og skilaði honum í netið, framhjá Aydin Bayramov í marki heimamanna.

Þetta var fjórða mark Alberts í síðustu fjórum leikjum hans fyrir landsliðið. Nú eru landsliðsmörk hans orðin fjórtán talsins, jafn mörg og Ríkharður Daðason og Arnór Guðjohnsen skoruðu fyrir landsliðið á sínum tíma.

Skömmu eftir mark Alberts voru Aserar nálægt því að skora sjálfsmark en boltinn small í slánni á marki heimamanna. Íslendingar fengu hornspyrnu og eftir hana skallaði Sverrir Ingi Ingason yfir úr dauðafæri.

Sverri urðu hins vegar ekki á nein mistök á 39. mínútu. Eftir skemmtilega útfærslu á aukaspyrnu sendi Jóhann Berg fyrir frá vinstri á Sverri sem skallaði boltann í fallegum boga í fjærhornið. Þetta var hans fyrsta landsliðsmark í níu ár en fyrstu þrjú mörkin komu öll EM-árið 2016.

Staðan var 0-2 í hálfleik, Íslandi í vil og staðan góð. Eftir rólega byrjun á seinni hálfleik þurfti Bayramov að verja tvívegis með skömmu millibili, fyrst frá Alberti og svo frá Andra Lucasi.

Elías Rafn Ólafsson hafði lítið að gera í íslenska markinu og varnarmenn þess voru vel á verði í þau fáu skipti sem Aserar gerðu sig líklega. Í ljósi stöðunnar þurftu þeir að sækja í seinni hálfleik en lítil sannfæring var í þeirra sóknaraðgerðum.

Íslenska liðið hafði það fremur náðugt í seinni hálfleik og þurfti ekki að eyða of mikilli orku í að halda Aserbaísjan í skefjum. Ísland ógnaði heldur ekki mikið eftir hlé. Jón Dagur Þorsteinsson fékk gott færi undir lok leiks eftir flott spil Íslands en Bayramov varði. Skömmu áður hafði Elías skapað heimatilbúna hættu með slöku útsparki en Anatoliy Nuriyev hitti ekki markið.

Íslenska liðið kláraði verkefni kvöldsins með sæmd og nú bíður þess risaleikur í Varsjá á sunnudaginn. Fyrri leikurinn gegn Úkraínu fór illa þrátt fyrir fína spilamennsku en tími á sunnudaginn er tími til að svara fyrir það og koma sér nær takmarkinu, HM á næsta ári.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira