Innlent

Ekki lengur von­laust til­felli sem enginn hefur trú á

Lovísa Arnardóttir skrifar
Guðlaugur er á góðum stað í dag. Hann segir vikuleg símtöl Reyks hafa bjargað lífi sínu.
Guðlaugur er á góðum stað í dag. Hann segir vikuleg símtöl Reyks hafa bjargað lífi sínu. Aðsend

Tuttugu og tveggja ára karlmaður sem nýlega hóf lyfjameðferð vegna áralangrar misnotkunar á ópíóíðum segir þjónustu Reyks hafa bjargað lífi sínu og óttast að ef henni verði lokað muni fjölmargir deyja. Hann hefur nýtt sér þjónustuna vikulega á þessu ári og er edrú í dag. 

Reykur, skaðaminnkandi þjónusta, opnaði í febrúarmánuði á þessu ári. Hætta er á að þjónustunni verði lokað um áramót fáist ekki fjármagn. Um 160 manns hafa leitað til þjónustunnar frá því að hún var sett á stofn en í Reyk getur fólk sem reykir ópíóíða og örvandi vímuefni fengið skaðaminnkandi þjónustu, ráðgjöf og eftirfylgni, í nafnleynd og sér að kostnaðarlausu.

Reykur veitir síma- og vettvangsþjónustu tvö kvöld í viku á höfuðborgarsvæðinu. Þjónustan fer fram í fólksbíl sem kemur þangað sem notendur óska eftir. Fólk á landsbyggðinni getur sótt þjónustuna í gegnum síma og fengið sendan pakka með skaðaminnkandi búnaði.

„Ég var í neyslu þar sem ég var að reykja ópíóíða og mig vantaði búnað, álpappír og Naloxone. Ég bý úti á landi og fékk þetta allt sent með pósti,“ segir Guðlaugur sem er búsettur á Norðurlandi og er 22 ára. 

Hann frétti af opnun þjónustu Reyks á Facebook hjá Matthildarsamtökunum og hringdi á fyrstu vakt þjónustunnar. Guðlaugur er ekki hans rétta nafn en hann þorði ekki að koma fram undir nafni vegna viðkvæmrar stöðu sinnar.

Símtölin hafi bjargað lífi hans

Hann segist hafa fengið mikinn stuðning frá Reyk og hafi sem dæmi heyrt í þeim í hverri einustu viku frá því að þjónustan opnaði í febrúar.

„Ef ég hafði ekki hringt í heila viku hringdu þær í mig. Mér þótti alltaf mjög vænt um það. Ég var einu sinni í mjög hættulegum aðstæðum og þær hringdu fyrir mig á sjúkrabíl og björguðu mér þannig.“

Þá aðstoðaði starfsmaður Reyks hann við að komast í Suboxone-meðferð hjá SÁÁ sem hann er enn á í dag.

„Það var til að hætta að nota ópíóíða. Mér tókst það ekki alveg strax en komst svo í flýtiþjónustu til að komast inn á Vog og byrjaði þar aftur í Suboxone-meðferð. Ég hef verið edrú síðan og það er ótrúlegt hvað þær hafa gert til að bjarga mér og mínum.“

Suboxone er ætlað sjúklingum í lyfjameðferð við ópíóíðafíkn og á að koma í veg fyrir fráhvarfseinkenni. Lyfið inniheldur tvö efni, búprenorfín og naloxón. Búprenorfín er lyf í flokki ópíóíða og líkist morfíni. Naloxón er efni sem blokkar ópíóíðaviðtaka og er því mótefni gegn ópíóíðalyfjum. Suboxone er ætlað fullorðnum og unglingum eldri en 15 ára sem hafa samþykkt að gangast undir meðferð gegn lyfjafíkn.

Hann tekur Suboxone-ið kvölds og morgna og fer auk þess í viðtöl í Reykjavík reglulega til að fara yfir hvernig gengur. Þar fær hann endurnýjaðan lyfseðil sem hann svo leysir út vikulega.

„Ég hef notað Naloxone-ið frá Reyk til að bjarga vini mínum. Hann hefði dáið án þess. Fyrir mig og marga aðra þá get ég alveg sagt að ég var ekki tilbúinn til að verða edrú fyrst þegar ég leitaði til þeirra, en þjónustan hjálpaði mér að halda mér á lífi þar til ég varð tilbúinn.“

Guðlaugur segir Naloxone-ið hafa bjargað sínu eigin lífi og vina sinna. Vísir/Anton Brink

Guðlaugur notaði ópíóíða í um fjögur ár áður en hann varð edrú og byrjaði að neyta þeirra 18 ára gamall.

„Ég var byrjaður mjög ungur en ópíóíðarnir komu ekki fyrr en ég var átján. Ég upplifði mikið ofbeldi sem barn, ólst upp við ofbeldi, og fór strax að reyna að flýja það með sjálfsskaða. Fyrstu efnin sem ég kynntist voru kannabis og síðar amfetamín og kókaín sem þróaðist fljótt út í eitthvað annað og meira. Þangað til þetta voru eins og hlekkir á mér. Ég komst ekki neitt og allir hugsuðu bara um mig sem fíkilinn sem myndi aldrei ná þessu. Ég átti mér í rauninni enga von fyrr en ég kynntist þessari lágþröskuldaþjónustu í Reykur sem sannarlega bjargaði lífi mínu.“

Missti sjö vini árið 2019

Hann segir baklandið sitt hafa verið misjafnt og undanfarið hafi hann fengið að sofa á sófum hér og þar og einnig hjá fjölskyldumeðlimum. Þannig hafi það verið í nokkur ár.

„Maður átti ekkert marga að til að hjálpa. Maður var bara þetta „lost cause“ sem enginn hafði trú á. Það er ekki þannig í dag og það er bara Reyk að þakka. Án þeirra þjónustu væri ég ekki á lífi og örugglega ekki margir vina minna heldur.“

Guðlaugur segist hafa misst fjölmarga á þessum tíma úr fíkn. 

„Bara árið 2019 missti ég sjö vini mína og síðan þá er ég búinn að vera að missa einn á þriggja til fjögurra mánaða fresti. Það er alltaf einhver að fara og það er þá yfirleitt úr neyslu eða ofskömmtun í raun. Ofskammtar sem er svo auðvelt að koma í veg fyrir með því að eiga Naloxone og kunna að nota það, og geta hringt og leitað sér aðstoðar þegar maður þarf hana.“

Í bíl Reyks er hægt að fá bæði samtal og búnað. Fyrir þau sem eru á landsbyggð geta þau fengið símtal og póstsendingu. Vísir/Vilhelm

Hann segir marga veigra sér við því að hringja eftir aðstoð því þau óttist lögregluna en segir að í þeim aðstæðum sé í það minnsta hægt að fara með manneskjuna út af svæðinu og hringja svo.

„Maður á að gera allt sem maður getur til að halda fólki á lífi. Það er það mikilvægasta. En það eru svo margir hræddir við viðbrögð lögreglunnar því þetta er auðvitað ólöglegt í þeirra augum og fólk vill ekki lenda í veseni. Margir hafa dáið vegna þess. Það er því miður sorglega algengt.“

Skortur á trausti stærsta vandamálið

Hann segir stærsta vandamál þessa hóps skort á trausti til úrræða í kerfinu og þá skipti ekki máli hvaða úrræði eða þjónustu er um að ræða.

„Fólk er svo rosalega hrætt við löggjöfina. Það er bara búið að gera líferni ákveðins hóps í samfélaginu ólöglegt. Það er það sem drepur fólk.“

Guðlaugur er eins og fyrr segir nýorðinn edrú og er að bíða eftir því að fá íbúð.

„Ég er núna að einbeita mér að því að styðja aðra fíkla í kringum mig. Ekki endilega til að vera edrú, heldur að kynna þau fyrir Reykur þjónustunni og fá hjálp þar, að passa að þau eigi alltaf Naloxone og koma til þeirra skaðaminnkandi upplýsingum eins og að vera ekki ein að nota. Það er það sem ég vil helst gera, sama hversu veikur ég er. Ef ég er edrú er það enn betra og þá get ég staðið betur við bakið á vinum mínum og fólkinu í kringum mig. Þetta er þjónusta sem verður að halda áfram. Ef hún hættir núna á fólk eftir að deyja í massívum tölum.“

Samtökin lögð niður um áramótin fáist ekki fjármagn

Reykur er rekinn af Matthildarsamtökunum og er sjálfboðaliðaverkefni þar sem 15 sérþjálfaðir sjálfboðaliðar starfa og ein forstöðukona.

„Ef við fáum ekki inn meira fjármagn mun öll þjónusta og starf samtakanna leggjast niður um áramótin. Það væri auðvitað gríðarlega sorglegt ef þjónusta okkar myndi leggjast niður. Við erum að vinna mikilvægt starf með afar viðkvæmum hópi í okkar samfélagi og því má ekki myndast þjónusturof,“ segir Svala Jóhannsdóttir, einn stofnenda samtakanna og forstöðukona Reyks.

Svala Jóhannesdóttir, forstöðukona Reyks, óttast að þjónustan verði lögð niður um áramótin fáist ekki meira fjármagn. Vísir/Vilhelm

Hún segir samtökin vinna hörðum höndum að því að fá meira fjármagn og leiti til bæði einstaklinga og fyrirtækja um að gerast mánaðarlegir styrktaraðilar, sem og ríkis og sveitarfélaga um betri fjárhagslegan stuðning.

Hún segir fjölbreyttan hóp hafa sótt þjónustu til þeirra. Alls hafi um 160 manns leitað til Reyks. Langflestir séu á aldrinum 18 til 35 ára, um 80 prósent séu með lögheimili í Reykjavík. Meirihluti glími við alvarlegan ópíóíðavanda. Um75 prósent skjólstæðinga reykja OxyContin daglega og 49 prósent reykja kókaín krakk daglega.

Langflestir sem leita í þjónustuna eigi það sameiginlegt að vera ekki í neinni annarri þjónustu eða úrræðum.

„Markmiðið með Reykur þjónustunni er að koma í veg fyrir að fólk þrói sinn vanda yfir í það að vera alvarlegri og kostnaðarsamari fyrir samfélagið. Að koma inn með gagnreynda skaðaminnkandi þjónustu og stuðning á fyrri stigum vímuefnanotkunar. Við erum að draga úr því að fólk verði meðal annars heimilislaust, lendi á varanlegri framfærslu ríkis og sveitarfélaga og erum einnig markvisst að reyna að draga úr fjölda ótímabæra lyfjatengdra andláta,“ segir Svala og að í þjónustunni nái þau að tengjast þessum hóp og veita honum markvissan stuðning og eftirfylgdni inn í heilbrigðis- og félagsleg úrræði.

Matthildur Jónsdóttir Kelley og Svala Jóhannsdottir segja báðar traust skipta miklu máli í lágþröskuldaþjónustuúrræði eins og Reyk. Vísir/Anton Brink

Matthildarsamtökin eru nefnd í höfuðið á Matthildi Kelley Jónsdóttur sem hefur alla tíð verið öflugur málsvari skaðaminnkunar. Matthildur flutti frá Íslandi til Chicago um tvítugt en er í dag 79 ára. Hún glímdi um árabil við þungan vímuefnavanda og heimilisleysi en vann um árabil við skaðaminnkun í Chicago.

Fjármagn hefur undanfarið verið verulega skert til þeirra samtaka og í þá þjónustu sem Matthildur hefur sinnt í Chicago.

„Þessi vinna er svo ótrúlega mikilvæg, og það er ekki endilega bara að þau séu að útdeila skaðaminnkandi búnaði, það eru þessi stöðugu tengsl við fólk sem á við alvarlegan vanda að stríða og lifir ákveðnum lífsstíl. Með stöðugum tengslum og fræðslu um hvernig fólk getur gert örsmáar breytingar á lífi sínu, eins og að nota ekki skítugan álpappír þegar það reykir,“ segir Matthildur.

Aðstoðaði fólk með HIV og sem notaði vímuefni í æð

Matthildur segir svona lágþröskuldaþjónustu geta skipt sköpum fyrir fólk í þessari stöðu. Þar fái þau aðstoð við að breyta litlum hlutum sem geti leitt til stærri breytinga. Þá segir hún það einnig skipta miklu máli að mynda þessi tengsl við þennan hóp því þau geti svo breitt boðskapinn til annarra.

„Það getur haft alvarlegar afleiðingar að missa þessi tengsl og traust. Á þeim tíma sem ég var í skaðaminnkun var staðan allt öðruvísi, það var aðallega fyrir fólk sem var með HIV og fyrir fólk sem var að nota vímuefni í æð. Þau dóu. Þau bara dóu og það sama getur gerst hér. Fólk verður svo frústrerað að það sé enginn til að tala við eða til að aðstoða það. Örvæntingin hjá þeim hópi sem svona samtök þjóna er mikil og þau þurfa svo mikla aðstoð til að komast í bata.“

Svala segir Matthildarsamtökin sérhæfa sig í að veita lágþröskulda skaðaminnkandi þjónustu á fyrri stigum vímuefnanotkunar, áður en að vandi fólks stigmagnast.

„Við höfum séð mörg áþreifanleg dæmi um það, að við höfum náð að styðja fólk þannig að það komist í bata, fær flýtiþjónustu í ópíóíðalyfjameðferð hjá SÁÁ og góða eftirfylgni frá okkur, og nær að halda húsnæði og jafnvel vinnu.“

Hægt er að fá ýmsan varning hjá Reyk til að tryggja örugga notkun vímuefna. Sé fólk ekki á höfuðborgarsvæðinu getur það fengið varninginn sendan með pósti. Vísir/Vilhelm

Svala segir þannig skipta höfuðmáli að þjónustan sé einnig veitt í gegnum síma.

„Það getur skipt mjög miklu fyrir fólk og margir sem koma til okkar eru á viðkvæmum stað og hrædd að segja frá notkun sinni. Þeim hefur vantar svona þjónustu sem er fordómalaus, sem veitir öruggt rými og mætir þeim á þeim stað sem þau eru á. Við styðjum fólk inn í þjónustur í kerfinu og veitum þeim leiðbeiningar um öruggari vímuefnanotkun.“

Svala segir afar marga sem leiti til þeirra glíma við mikinn andlegan vanlíðan og geti verið í verulegri sjálfsvígshættu. Því veiti þjónustan mikinn sálrænan stuðning og eru þó nokkrir skjólstæðingar sem fá símastuðning einu sinni til tvisvar í viku. Þá sé sjálfsvígsáhættan metin og skoðað hvort einstaklingar þurfi á annar þjónustu að halda ásamt því að fá stuðnigssamtal.

Fjölbreyttur hópur sem leitar til þeirra

Svala segir hópinn sem leitar í Reyk mjög fjölbreyttan og búi við ólíkar félagslegar aðstæður. Umsé að ræða fólk í fullri vinnu, í námi, fólk sem eigi fjölskyldu og börn og fólk sem er dottið af vinnumarkaði. Hluti af hópnum á sitt eigið húsnæði, aðrir eru á almennum leigumarkaði eða í félagslegu húsnæði og lítill hópur er heimilislaus.

„Það getur verið mikill sársauki sem fylgir því að vera fastur á þessum stað og það verður oft mikil skömm, að fólk er oft svo eitt með þennan vanda,“ segir Svala og að á hverjum tíma séu til dæmis alltaf nokkrir í þjónustu sem hafa ekki opnað sig um sinn vímuefnavanda við neinn annan en sjálfboðaliða í Reyk.

„Við erum oft fyrsti snertiflöturinn og fólk er kannski búið að vera að mana sig upp í að hringja í margar vikur eða mánuði. Senda fyrst SMS eða skilaboð á samfélagsmiðlum og smám saman vinnum við inn traust, getum náð góðu samtali, metið stöðuna, veitt skaðaminnkandi þjónustu og byrjað að vinna með þeim í jákvæða átt.“

Svala segir samtökin einnig veita mörgum aðstandendum stuðning og ráðleggingar um til dæmis hvernig sé hægt að setja mörk eða hvernig sé hægt að styðja við á jákvæðan og hjálplegan hátt. Auk þess leiðbeini þau aðstandendum með leiðir innan kerfis sem geti verið þeim færar.

Fræða dyra- og öryggisverði

Þá hafa samtökin einnig útvegað aðstandendum, dyravörðum og starfsmönnum öryggisfyrirtækja Naloxone og þjálfað þau í að nota hann, og það sé liður í markmiði samtakanna að koma í veg fyrir ótímabær lyfjatengdandlát.

Svala telur hafa orðið viðhorfsbreytingu í íslensku samfélagi síðustu ár hvað varðar fólk með vímuefnavanda. Það sé meiri skilningur á vandanum en á sama tíma séu viðbrögð stjórnvalda ekki í takt við það.

„Það er margt sem vantar upp á í þjónustu við fólk sem notar vímuefni á Íslandi. Þróunin hjá stjórnvöldum hefur verið gerð í pínulitlum hænuskrefum og er málaflokkurinn jafnframt undirfjármagnaður, sem dæmi um það er að stór hluti starfa í skaðaminnkun er unninn í sjálfboðastarfi vegna þess að stjórnvöld hafa ekki virt nógu mikið gildi þessarar þjónustu og taka henni ekki nægilega alvarlega.“

Búin að vera sjálf allt þetta fólk

Matthildur hefur persónulega reynslu á að hafa glímt við þungan vímuefnavanda og þekkir því af eigin raun hversu mikilvægt er að málaflokknum sé sinnt vel og að vandað sé til verka.

„Fólkið sem hún talar um, ég er búin að vera þau öll svo ég veit hvernig þetta er fyrir þetta fólk sem er úti, sem er í vandræðum, sem er að nota, ég veit alveg hvernig þetta er. Hvað þau eru hrædd, hvað þau skammast sín, hvað þú lýgur mikið því þú ert alltaf að reyna að fela þig. Þetta er hræðilegt líf sem enginn vaknaði og valdi,“ segir Matthildur.

Hún telur fordómana gagnvart þessum hópi, sem er veikur af vímuefnavanda, ekkert minni en þegar hún var sjálf að nota eða starfaði í skaðaminnkun. Enn deyi of margir og á sama tíma séu efnin að verða hættulegri. Þetta sé risamarkaður og skeytingarleysi þeirra sem stýri markaðnum virðist meira en þegar hún var sjálf með vímuefnavanda. Þess vegna sé svo mikilvægt að fólk hafi eitthvert að leita.

„Traust skiptir svo miklu máli. Þegar fólk byrjar að treysta þér og deilir með þér hvað þau eru að gera og hvernig, og þú getur, fordómalaust, gefið þeim ráð og fræðslu um að gera það á öruggari hátt. Margir líta niður á það og hugsa bara um að það sé verið að kenna einhverjum að nota en það er þarna sem þetta byrjar. Það tekur tíma en fólk gerir á endanum breytingar. Ég hef séð það svo oft gerast.“

Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×