Fótbolti

Stöðufundur í Laugar­dal klukkan 10:30

Valur Páll Eiríksson skrifar
Myndin er úr safni en snjómagnið er ekki minna í dag.
Myndin er úr safni en snjómagnið er ekki minna í dag. Vísir/Vilhelm

Eftirlitsaðilar Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, munu funda klukkan 10:30 með dómurum leiks Íslands og Norður-Írlands, auk forráðamanna knattspyrnusambanda ríkjanna, vegna fyrirhugaðs leiks kvöldsins í Þjóðadeild kvenna í fótbolta á Laugardalsvelli.

Leikur liðanna á að hefjast klukkan 18:00 í kvöld en ljóst er að aðstæður eru vart boðlegar eins og sakir standa. Um er að ræða reglulegan fund sem ávallt er haldinn á morgni leikdags og því hluti af hefðbundnu regluverki UEFA. RÚV greindi fyrst frá.

Laugardalsvöllur er hins vegar snævi þakinn líkt og höfuðborgarsvæðið allt og ljóst að ráðast þarf í töluverðar aðgerðir svo leikur kvöldsins geti farið fram. Sér í lagi þar sem ekki er útlit fyrir að snjókomunni sloti í bráð.

Rætt var við Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóra Laugardalsvallar, í Sportpakka gærkvöldsins. Hann sagði starfsfólk vallarins vera undirbúið fyrir snjókomuna, að ráðist yrði í að moka völlinn og vonast þá til að nýtt undirhitakerfi undir leikfletinum gæti hjálpað til.

Stefnt er á að leikurinn fari fram klukkan 18:00 í kvöld en að líkindum fæst ekki skýrari mynd fyrr en eftir fundinn klukkan 10:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×