Fótbolti

„Hann var 94 kg og djammaði á hverju kvöldi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fabio Capello gafst upp á Ronaldo þegar hann stýrði Real Madrid.
Fabio Capello gafst upp á Ronaldo þegar hann stýrði Real Madrid. getty/Angel Martinez

Fabio Capello losaði sig við Brasilíumanninn Ronaldo þegar hann þjálfaði Real Madrid. Honum fannst Ronaldo skorta aga og vilja til að vera í góðu formi.

Capello tók við Real Madrid í annað sinn sumarið 2006. Ronaldo var þá leikmaður Madrídarliðsins en hann kom til þess frá Inter 2002.

Brassinn var ekki lengi hjá Real Madrid eftir að Capello tók við og gekk í raðir AC Milan í janúar 2007.

„Ronaldo er besti leikmaður sem ég hef þjálfað,“ sagði Capello um framherjann sem fékk Gullboltann í tvígang á glæstum ferli.

„Hann elskaði að djamma á hverju kvöldi, hann var óður, hann var 94 kg og vildi ekki léttast. Eitt sinn sagði ég forsetanum að við þyrftum að láta hann fara því það væri engin leið að halda áfram. Svo við létum hann fara. En hann er sá besti sem ég hef þjálfað.“

Ronaldo hefur aldrei farið leynt með hversu mikið hann naut þess að skemmta sér, meðal annars þegar hann var leikmaður Real Madrid.

Undir stjórn Capellos vann Real Madrid spænska meistaratitilinn 2007 en þrátt fyrir það var hann rekinn frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×