Innlent

„Ég hef aldrei séð svona mikið vatn í Jökuls­á“

Samúel Karl Ólason skrifar
Einn bíll var yfirgefinn í vatninu í morgun.
Einn bíll var yfirgefinn í vatninu í morgun. Gunnlaugur Ólafsson

Gífurlega mikið vatn er í Jökulsá í Lóni, eftir mikla rigningu á svæðinu, og hefur hringvegurinn farið í sundur vestur. Íbúi á svæðinu segist aldrei hafa séð eins mikið vatn í Jökulsá.

Gunnlaugur Ólafsson, frá Stafafelli, tók í morgun myndbönd á vettvangi sem sýna hve gífurlega mikið vatn er í ánni. Í samtali við fréttastofu segir hann sérstaklega mikið vatn undir brúnni en sömuleiðis flæði mikið í gegnum veginn.

Fylgst er með gangi mála í vaktinni hér.

„Ég hef aldrei séð svona mikið vatn í Jökulsá,“ segir Gunnlaugur. Hann segir spár hafa sagt til um að rigning yrði mikil á svæðinu og að mögulega yrði sett nýtt met. Hann segir rigninguna hafa verið mjög mikla en svo virðist sem hún hafi aðeins minnkað.

Vegurinn var rofinn í fyrra, þegar mikill vatnavöxtur varð í ánni og það á svipuðum stað og vegurinn fór í sundur nú.

„Núna sá náttúran um þetta sjálf,“ segir Gunnlaugur, sem kannast ekki við að þetta hafi gerst áður.

Einn bíll var yfirgefinn í vatninu í morgun. Yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Höfn sagði í samtali við fréttastofu í morgun að óljóst væri hvenær minnka myndi í ánni aftur og hægt verður að gera við veginn.

Fyrir nokkrum árum var bætt við varnargarði til að stýra vatni betur undir brúna og eldri varnargarður hækkað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×