Fótbolti

Mætti tveimur mínútum of seint og var settur á bekkinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marcus Rashford er byrjaður að finna fjölina sína hjá Barcelona.
Marcus Rashford er byrjaður að finna fjölina sína hjá Barcelona. epa/Alejandro Garcia

Hansi Flick, knattspyrnustjóri Barcelona, gefur engan afslátt þegar kemur að stundvísi. Það hefur komið í ljós á síðustu dögum.

Um síðustu helgi mætti Raphinha of seint á æfingu og var settur á bekkinn fyrir leik gegn Valencia í spænsku úrvalsdeildinni. Hann kom inn á sem varamaður og skoraði tvívegis í 6-0 sigri Börsunga.

Í gær mætti Marcus Rashford svo of seint á æfingu fyrir leikinn gegn Getafe og Flick setti hann á bekkinn, jafnvel þótt enski landsliðsmaðurinn hafi skorað bæði mörk Barcelona í 1-2 sigri á Newcastle United í Meistaradeild Evrópu á fimmtudaginn.

Samkvæmt heimildum ESPN var Rashford tveimur mínútum of seinn á æfinguna í gær en Flick gaf engan afslátt.

Rashford kom samt inn á í leiknum gegn Getafe og lagði upp þriðja mark Barcelona fyrir Dani Olmo. Börsungar unnu 3-0 sigur. Olmo skoraði eitt mark og Ferran Torres tvö.

Hinn 27 ára Rashford hefur komið að fjórum mörkum í síðustu þremur leikjum Barcelona; skorað tvö og gefið tvær stoðsendingar. Hann kom á láni til Katalóníuliðsins frá Manchester United.

Barcelona mætir nýliðum Real Oviedo í spænsku úrvalsdeildinni á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×