Erlent

Rússar á­frýja niður­stöðu um hrap malasísku farþegaþotunnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Brak úr farþegaþotu Malaysia Airlines eftir að hún var skotin niður yfir Úkraínu árið 2014. Rússar vilja nú að sami dómstóll og þeir komu í veg fyrir að fjallaði um málið á sínum tíma hnekki ákvörðun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um að þeir beri ábyrgð á örlögum 298 farþega og áhafnar.
Brak úr farþegaþotu Malaysia Airlines eftir að hún var skotin niður yfir Úkraínu árið 2014. Rússar vilja nú að sami dómstóll og þeir komu í veg fyrir að fjallaði um málið á sínum tíma hnekki ákvörðun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um að þeir beri ábyrgð á örlögum 298 farþega og áhafnar. Vísir/AFP

Stjórnvöld í Kreml hafa vísað ákvörðun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um að þau bæru ábyrgð á því að farþegaþota Malaysia Airlines var skotin niður yfir Úkraínu árið 2014 til Alþjóðasakamáladómstólsins. Rússar hafa alla tíð neitað að axla ábyrgð á því að hátt í þrjú hundruð manns týndu lífi.

Ákvörðun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar í maí um að Rússa bæru ábyrgð á örlögum flugs MH17 var sú fyrsta þar sem stofnunin tók afstöðu til deilu á milli aðildarríkja hennar. Hollensk og áströlsk stjórnvöld kröfðust ákvörðunarinnar en flestir farþega vélarinnar voru þaðan.

Rússneska utanríkisráðuneytið sagðist hafa áfrýjað ákvörðuninni á „öllum forsendum“. Á meðal þeirra var að stofnunin hefði ekki haft umboð til að taka ákvörðunina en einnig um efnisleg atriði. Stofnunin hefði ekki látið rannsaka atvikið ítarlega heldur reitt sig á niðurstöður hollenskra rannsakenda.

Hollenskur dómstóll dæmdi tvo Rússa og einn úkraínskan aðskilnaðarsinna seka um að hafa skotið flugvélina niður árið 2022. Upphaflega fóru Hollendingar og Ástralar fram á að Alþjóðasakamáladómstóllinn tæki málið fyrir en Rússar beittu neitunarvaldi til að koma í veg fyrir það.

Niðurstaða hollensku rannsóknarinnar var að flugvélin, með 298 manns um borð, hefði verið skotin niður með Buk-flugskeyti sem Rússar létu rússneska aðskilnaðarsinna fá. Rússar hafa alla tíð þrætt fyrir að þeir hafi átt nokkurn þátt í harmleiknum. Rannsakendurnir sögðu að rússnesk stjórnvöld hefðu ítrekað sent þeim fölsuð gögn eftir að vélin var skotin niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×