Lífið

Fór ein í eftirpartý með Drake en segir ekki meir

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Gugga segir kvöldið með Drake vera toppinn á tilverunni.
Gugga segir kvöldið með Drake vera toppinn á tilverunni.

Það vakti mikla athygli þegar íslenska samfélagsmiðlastjarnan Guðrún Svava Egilsdóttir, betur þekkt sem Gugga í gúmmíbát, kastaði brjóstahaldara upp á svið á tónleikum kanadíska rapparans Drake í Berlín um helgina. Rapparinn endurbirti myndband frá henni á Instagram sem leiddi til þess að henni var boðið í eftirpartý með honum.

Gugga var gestur í Brennslunni í morgun þar sem hún segir frá þessu örlagaríka kvöldi. Viðtalið í heild þar sem Gugga fer um víðan völl varðandi Berlínarævintýrið með Drake má heyra neðst í fréttinni.

„Ég var alltaf Kanye-fan en er það ekki lengur; núna er Drake númer eitt hjá mér,“ sagði Gugga kímin í samtali við útvarpsfólkið Ríkharð Óskar Guðnason og Jóhönnu Helgu Jensdóttur.

Í þættinum lýsti Gugga því hvernig hún náði athygli rapparans áður en hún kastaði brjóstahaldaranum upp á svið. Atvikið gerðist snemma á tónleikunum, og Gugga segist hafa þurft smá stund til að ná aftur að einbeita sér og njóta tónleikanna.

„Ég valdi mitt móment. Ég hélt honum yfir höfðinu á mér þar til hann kom auga á hann. Hann sagði þá „I need that“. Það var alveg erfitt að hitta, en ég þurfti að eiga alveg sögulegt kast,“ segir Gugga.

Á umræddu Instagram-myndbandi sést Drake taka upp brjóstahaldarann glottandi og segja: „Vá, 44 H — guð minn góður, ég tek þennan með mér heim.“

Fór ein í eftirpartý

Gugga var í VIP-stúku ásamt vinkonu sinni, Lönu Kristinsdóttur, eiganda Kenzen. Þær stóðu afar nálægt sviðinu, sem gerði kastið mögulegt. Gugga segir að hópurinn þeirra hafi verið fjörugri en aðrir tónleikagestir í kring, sem hafi óneitanlega beint athygli Drake að þeim.

Gugga segir kvöldið með Drake vera toppinn á tilverunni.

Rikki spurði Guggu hvort hún hefði fengið að hitta Drake eftir tónleikana, og hún svaraði játandi. „Já, ég fékk að fara í eftirpartý með Drake. Ég ætla ekki að segja mikið meira, en ég fékk að hitta hann,“ sagði hún hlæjandi: „Hann er svo yndislegur og einlægur — ég dýrka hann.“

Þarf ekkert meira en þetta

Gugga fór ein að hitta Drake og sagði frá samtali sínu við hann, þar sem hún hvatti hann til að koma að halda tónleika á Íslandi. 

„Hann spurði hvort hér væru nægilega stórar tónleikahallir. Hann er að fara að gefa út plötu sem heitir Iceman og segir að hann ætli að reyna að koma hingað,“ sagði hún.

Spurð hvort hún hefði náð að halda ró sinni, sagði hún: „Já, ég náði því. Hann er bara manneskja í grunninn.“

Daginn eftir tónleikana sagðist hún ennþá vera að ná sér niður.

„Ég get ekki útskýrt það. Ég er bara að hugsa að ég þurfi ekki að gera neitt meira. Lífið… bara, shoot me now — ég er bara góð, skilurðu? Ég er ennþá að meðtaka þetta. Þetta er stórt.“

Viðtalið í heild má heyra hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.