Erlent

Ráðast í frekari rann­sókn á and­láti kvennanna sem létust í Laos

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Freja Vennervald Sørensen lést af völdrum eitrunar, hún og vinkona hennar Anne-Sofie voru meðal þeirra sex ferðalanga sem vitað er að létust af völdum eitrunar sem rakin er til sama ferðamannastaðar í fyrra.
Freja Vennervald Sørensen lést af völdrum eitrunar, hún og vinkona hennar Anne-Sofie voru meðal þeirra sex ferðalanga sem vitað er að létust af völdum eitrunar sem rakin er til sama ferðamannastaðar í fyrra.

Danska lögreglan ætlar að hefja nánari rannsókn vegna andláts tveggja ungra danskra kvenna sem létust í Asíulandinu Laos í fyrra. Þær létust báðar vegna metanóleitrunar eftir neyslu á áfengum drykk á farfuglaheimili í bænum Vang Vieng, en nú hyggst danska lögreglan grennslast betur fyrir um málið.

Vinkonurnar Freja Vennervald Sørensen og Anne-Sofie Ørkild Coyman voru 20 og 21 árs þegar þær létust. Þær voru að skemmta sér á farfuglaheimili í borginni og tóku skot af áfengi sem reyndist innihalda metanól. Eitrunin varð til þess að þær létust báðar, auk nokkurra annarra bakpokaferðalanga sem létust einnig af völdum eitrunar.

Kvörtuðu yfir aðgerðaleysi til ríkissaksóknara

TV2 greinir frá því í dag að lögreglan á Mið- og Vestursjálandi hyggist nú rannsaka málið nánar, en fyrr á þessu ári vakti það reiði meðal fjölskyldna stúlknanna þegar lögregla tók ákvörðun um að rannsaka málið ekki frekar. Það segir lögregla hafa verið á þeim forsendum að danska lögreglan hafi ekki lögsögu til að rannsaka mál á erlendri grundu, en foreldrarnir kvörtuðu til ríkissaksóknara í von um að andlát dætra þeirra yrði rannsakað. Sú umleitan bar árangur að því er fram kemur í umfjöllun TV2 þar sem nú stendur til að skoða málið betur.

Kallað er eftir svörum við því hvernig hinn eitraði drykkur rataði í glös kvennanna og hver beri ábyrgð. 

Í framhaldi af fund lögreglu með foreldrunum í sumar hafi verið ákveðið að skoða málið betur en ekki kemur fram í hverju nánari rannsókn muni nákvæmlega felast. Meðal þess sem foreldrarnir komu með til lögreglu voru dánarvottorð dætra þeirra auk afrita af öðrum sjúkrahúsgögnum frá Laos sem fjölskyldumeðlimur Anne-Sofie hafði fengið að sjá.

Takmarkaðar rannsóknarheimildir

Það liðu þrír dagar frá því að Freja og Anne-Sofie létust og þar til foreldrar þeirra fengu fréttir af andlátinu, eftir að hafa sjálfir leitað aðstoðar dönsku utanríkisþjónustunnar um aðstoð þar sem ekkert hafði spurst til þeirra í nokkra daga.

Fyrir liggur að danska lögreglan hefur takmarkaðar valdheimildir til að rannsaka mál í Laos en lögregluyfirvöld þar í landi hafa ekki svarað fyrirspurnum TV2 að því er segir í fréttinni.

Lögregluyfirvöld í Laos handtóku á sínum tíma eiganda og framkvæmdastjóra gistiheimilis í Vang Vieng í tengslum við dauðsföll ferðamanna af völdum metanóleitrunar, en ekkert dómsmál hefur verið höfðað né niðurstaða fengist í málið eftir því sem danskir fjölmiðlar komast næst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×