Erlent

Pól­land ekki verið nær stríði frá því í seinni heims­styrj­öldinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Pólskir slökkviliðsmenn tryggja brak úr dróna sem var skotinn niður í Czosnowka í dag.
Pólskir slökkviliðsmenn tryggja brak úr dróna sem var skotinn niður í Czosnowka í dag. AP/Piotr Pyrkosz

Forsætisráðherra Póllands segir að landið hafi ekki verið nær því að lenda í opnum stríðsátökum frá því í síðari heimsstyrjöldinni eftir að rússneskir drónar voru skotnir niður þar í nótt. Rússar hafi farið yfir strikið.

Herþotur frá Póllandi og bandamönnum þess í Atlantshafsbandalaginu skutu niður allt að fjóra af nítján rússneskum drónum sem rufu lofthelgi landsins í nótt, að sögn Donalds Tusk, forsætisráðherra.

„Ég hef enga ástæðu til þess að halda því fram að við séum á barmi stríðs en það hefur verið farið yfir strikið og þetta er óviðlíkjanlega hættulegra en fram að þessu,“ sagði Tusk á pólska þinginu í morgun.

„Þessi staða færir okkar nær opnum stríðsátökum en við höfum verið frá síðari heimsstyrjöldinni.“

Sjö, og mögulega átta, drónar hafa fundist á nokkrum stöðum víðsvegar um Pólland, að sögn innanríkisráðuneyti þess. Þetta er í fyrsta skipti frá upphafi stríðsins í Úkraínu sem NATO-flugvélar hafa skotið niður rússneskar vígvélar.

Volodýmýr Selenskíj, forseti Úkraínu, hélt því fram í morgun að drónarnir sem fóru inn í pólsku lofthelgina hefðu verið tuttugu og fjórir. Það hafi þó ekki verið endanlega staðfest.

Pólsk stjórnvöld hafa óskað eftir því að fjórða grein stofnsáttmála NATO verði virkjuð en hún felur í sér að ríki geti óskað eftir því að bandalagsríkin ráði ráðum sínum ef eitthvert þeirra telur öryggi sínu ógnað. Pólland og fleiri ríki virkjuðu greinina þegar Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2022.

Jafnvel Orbán telur uppákomuna óásættanlega

Evrópskir leiðtogar telja að Rússar hafi vísvitandi sent drónana til Póllands til þess að ögra og stigmagna átökin í Úkraínu.

„Stríð Rússlands er að stigmagnast en ekki að ljúka. Við sáum alvarlegasta rof Rússa á lofthelgi Evrópu í Póllandi í nótt frá því að stríðið hófst og vísbendingar eru um að þetta hafi verið viljaverk, ekki óvart,“ sagði Kaja Kallas, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins.

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, á sérstökum neyðarfundi ríkisstjórnar sinnar vegna drónaflugs Rússa inn í landið.AP/forsætisráðuneyti Póllands

Talsmaður stjórnvalda í Kreml vildi ekki tjá sig um drónaflugið þegar hann var spurður í dag. Sakaði hann Evrópusambandið og NATO um að setja reglulega fram stoðlausar ásakanir um ögranir Rússa.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði uppákomuna óásættanlega og að hann ætlaði að funda með Mark Rutte, framkvæmdastjóra NATO. Alexander Stubb, forseti Finnlands, sakaði Rússa um að reyna að stigmagna átök við Evrópu.

Jafnvel Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands og nánasti bandamaður Vladímírs Pútín í Evrópu, tók undir að drónaflugið væri ekki ásættanlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×